Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 10:35:11 (5113)

2001-03-01 10:35:11# 126. lþ. 80.4 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[10:35]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 728 vegna 120. máls, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að heimild til svokallaðrar tegundartilfærslu verði þrengd. Í tegundartilfærslu samkvæmt gildandi lögum felst að heimilt er að veiða yfir aflamark í tiltekinni tegund botnfisks allt að 5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks, enda skerðist aflamark í öðrum tegundum botnfisks hlutfallslega miðað við reiknað verðmæti tegundanna. Upphaflegur tilgangur með slíku ákvæði var sá að skapa sveigjanleika í kerfinu og þannig höfum við heyrt það í gegnum tíðina að menn hafa verið að tala um þetta mál út frá þeim sjónarhóli þannig að síður kæmi til brottkasts þegar fisktegund fengist sem viðkomandi bátur hefði ekki aflamark í. Framkvæmdin hefur hins vegar orðið sú að heimildin hefur fyrst og fremst verið nýtt til að auka afla í eftirsóknarverðari tegundum og draga úr veiði á öðrum. Því er lagt til í frumvarpinu að heimildin verði takmörkuð frá því sem nú er þannig að aldrei verði heimilt að breyta meira en sem nemur 2% af heildarbotnfiskskvótanum í hverja tegund. Eftir standa 3% sem nýtast í hinum upprunalega tilgangi ákvæðisins sem er að skapa sveigjanleika í kerfinu þannig að meðafla sé síður hent þegar fisktegund veiðist sem ekki er aflamark fyrir.

Meiri hluti sjútvn. vill vekja athygli á að núgildandi reglur um tegundartilfærslu hafa leitt til þess að fiskverkendur hafa lent í erfiðleikum með að verða sér úti um hráefni úr tilteknum tegundum þegar sú staða hefur verið uppi að tegundartilfærsla hefur verið nýtt til þess að breyta í verðmeiri tegundir og menn hafa þá verið uppiskroppa með aðrar tegundir. Í þessu dæmi hafa verið nefndar ýmsar flatfisktegundir og þar kom fram í máli eins þeirra gesta sem heimsótti sjútvn. að þetta hefði þegar valdið ýmsum erfiðleikum, sérstaklega við flatfiskvinnslu, t.d. á Suðurnesjum af þessum orsökum.

Í töflu í fskj. sem Fiskistofa hefur tekið saman að beiðni nefndarinnar kemur þetta vel fram. Þar sést að tegundartilfærsla í einstökum tegundum hefur numið allt að 60,5% af úthlutuðu aflamarki á þessu ári. Augljóst er að þetta er ekki í samræmi við upphaflegan tilgang sem var tryggja tiltekinn sveigjanleika í kerfinu og annað ekki.

Þar sem liðið er á fiskveiðiárið og margir einstaklingar og lögaðilar sem stunda útgerð hafa gert ráðstafanir í samræmi við gildandi lög leggur meiri hlutinn til að frumvarpið taki gildi um næstu fiskveiðiáramót en upphaflega frv. gerði ráð fyrir því að lögin öðluðust þegar gildi.

Meiri hlutinn leggur síðan til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Fjarverandi við þessa afgreiðslu málsins voru hv. þm. Hjálmar Árnason og Árni R. Árnason. Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og Jóhann Ársælsson skrifa undir álitið með fyrirvara en aðrir þingmenn sem undir álitið skrifa án fyrirvara eru hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður og frsm., Guðmundur Hallvarðsson, Vilhjálmur Egilsson og Kristinn H. Gunnarsson.