Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 13:57:40 (5139)

2001-03-01 13:57:40# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það eru ekki allir ánægðir með þær skipulagsbreytingar sem hafa verið gerðar hjá Íslandspósti undir merkjum hagræðingar og sparnaðar og er ljóst að þetta er aðeins upphaf að lokunum enn fleiri pósthúsa á landsbyggðinni og að enn fleiri verður sagt upp, þ.e. ef áætlanir Íslandspósts ganga eftir.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hjá Lilju Rögnu Magnúsdóttur, sem situr í stjórn Íslandspósts, hafa breytingar á starfrækslu pósthúsa ekki verið til umfjöllunar í stjórninni fram til þess. Því lét hún bóka á síðasta stjórnarfundi Íslandspósts eftirfarandi:

,,Óska eftir að allar skipulagsbreytingar á rekstri póstafgreiðslna verði kynntar í stjórn áður en málin eru komin á lokastig og stjórn gefist kostur á að kynna sér tillögur að breytingum og taka afstöðu í framhaldi af því.``

Það er ekki sama hvernig umhverfi og fagleg afgreiðsla Póstsins er innt af hendi. Því er nauðsynlegt að settar verði skýrar reglur um þjónustustig og hver lágmarksþjónustan megi vera. Það þarf að skilgreina þjónustuna eftir þéttbýli og dreifbýli. Póstsendingar eru meira en að koma bréfi eða bögglum milli staða. Póstsendingar eru trúnaðarmál auk þess sem send eru verðmæti, m.a. peningasendingar, sem krefjast öruggrar afgreiðslu.

Að sameina póstþjónustu og banka eða sparisjóði er allt annað þjónustustig en að koma póstþjónustunni inn í almenna verslun eða sjoppur og bensínstöðvar. Umhverfi og fagleg vinnubrögð póstþjónustunnar hafa ekki síður en öll önnur opinber þjónusta áhrif á þá upplifun sem við fáum gagnvart þeim stað sem við búum á en fyrst og fremst á lífsskilyrði fólks sem býr á landsbyggðinni. Því getur lokun pósthússins verið sá dropi sem fyllir mælinn í íbúaþróun byggðar.

Póstþjónustan á Austurlandi er nú til skoðunar hjá Íslandspósti. Það er krafa okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að látið verði af handahófskenndum lokunum pósthúsa og þverrandi þjónustu. Við hljótum að gera ákveðnar gæðakröfur.