Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 15:17:47 (5163)

2001-03-01 15:17:47# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst nokkuð erfitt að sleppa hendi af málinu til nefndar meðan það stendur með þeim hætti sem það gerir nú á þessu augnabliki, að ekki er vitað um þau áhrif sem frv. hefur að því er varðar skattalegu meðferðina á því og hvort verið sé að ívilna sérstaklega samvinnufélögunum. Ég var að reyna að leita samstarfs við hæstv. ráðherra um að hún mundi fara í þetta mál sem er henni alls ókunnugt í heilt ár að verið sé að veita hér samvinnufélögunum sérstaklega skattaívilnun sem aðrir hafa ekki með þeirri leið sem hér er verið að fara. Mér finnst slæmt, herra forseti, að málið sé í þeirri stöðu að ekki sé hægt að fá upplýsingar um það rétta og sanna í málinu og hæstv. ráðherra, í tvígang spurður, reyni að smokra sér hjá því að verða við þeim óskum sem hér hafa verið settar fram, þ.e. að hún og hæstv. fjmrh. setjist yfir það að leiða það rétta og sanna í ljós og nefndarmenn í efh.- og viðskn. fái slíkt sameiginlegt minnisblað frá ráðherrunum um þetta tiltekna atriði.

Mér er nokkur vandi á höndum, herra forseti, þegar hæstv. ráðherra tekur með þessu móti í þá beiðni mína sem hér hefur komið fram, en það á eftir að ræða frv. um tekjuskatt og eignarskatt og ég fer þá þess á leit við hæstv. viðskrh. og óska hér með eftir því og læt þá ósk koma í ljós til að málið geti gengið til efh.- og viðskn. að hæstv. viðskrh. verði viðstaddur ásamt fjmrh. þegar frv. um tekjuskatt og eignarskatt verður tekið fyrir sem tengist þessu máli og ráðherrann verði þá betur undirbúinn að svara þeim athugasemdum sem fram hafa komið hjá ríkisskattstjóra.

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort við getum ekki fallist á þá málsmeðferð að hæstv. ráðherra leitist við að vera hér viðstaddur þegar fjmrh. mælir fyrir frv. sínu og hún hafi þá kynnt sér þessa umsögn ríkisskattstjóra þannig að við getum þá tekið frekari efnislega umfjöllun um það sem fram kemur í bréfi frá ríkisskattstjóra.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun koma ábendingum þingmannsins á framfæri til hæstv. fjmrh.)