Vátryggingarsamningar

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 15:36:26 (5167)

2001-03-01 15:36:26# 126. lþ. 80.11 fundur 460. mál: #A vátryggingarsamningar# (slysa- og sjúkratryggingar) frv., Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða að þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir góðar undirtektir og góðar ábendingar varðandi þessi mál um leið og ég þakka öðrum hv. meðflm., þeim Einari Má Sigurðarsyni, Jóhanni Ársælssyni, Össuri Skarphéðinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir að vera með mér í þessu máli.

Ég vil taka undir að það er rík ástæða til að fara yfir lög um vátryggingarsamninga. Þetta eru lög frá 1954 og þótt einhverjar breytingar hafi verið á þeim gerðar þá eru þær ekki miklar. Það er full ástæða til að velta fyrir sér hvernig tryggingafélögin vinna. Ég er hér með grein, herra forseti, sem ég leyfi mér að vitna í þar sem fjallað er um það að tryggingafélögin vöktu á sér óþægilega athygli með því að saka fólk um svik. Og það er í fleiri en eitt skipti sem tryggingafélög hafa nálgast mál á þann hátt .

Einnig má velta því fyrir sér hvernig aðkoma vátryggingafélaganna er að Tryggingastofnun ríkisins varðandi bílslys og þess háttar. Það er ef til vill ástæða til að fara yfir það í nokkru máli þegar og ef færi gefst til þess. Ég vona að þetta mál fái framgang hjá hv. allshn. og þá mun gefast tækifæri til að fjalla um fleiri greinar sem þyrfti að taka fyrir og skoða.

Ég ítreka eins og áður sagði að ég vona að málið fái góðan framgang og þakka fyrir undirtektirnar og ábendingarnar sem komu fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.