Útboðsstefna ríkisins til eflingar íslenskum iðnaði

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 15:39:11 (5168)

2001-03-01 15:39:11# 126. lþ. 80.12 fundur 487. mál: #A útboðsstefna ríkisins til eflingar íslenskum iðnaði# þál., Flm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. sem við erum tveir flutningsmenn að, sá sem hér stendur og hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason. Þáltill. lýtur að því að Alþingi skori á ríkisstjórnina og feli henni að endurskoða útboðsstefnu ríkisins sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 25. maí 1993. Endurskoðuð stefna feli m.a. í sér að skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum og öðrum alþjóðlegum samningum sem Ísland á aðild að verði að fullu virtar. Samtímis verði þess ávallt gætt að útboðum og innkaupum fyrir ríki og ríkisstofnanir verði hagað þannig að þau stuðli eins og kostur er að uppbyggingu og þróun íslensks iðnaðar.

Í almennum orðum er hér verið að leggja til að við reynum innan þess svigrúms sem EES-samningurinn heimilar að haga útboðum þannig að íslensk iðnfyrirtæki eigi sem allra mestu möguleika að hreppa þau verk sem boðið er í.

Aðalatriði þessa máls er að erlend fyrirtæki og erlendar þjóðir, sem við erum í samkeppni við innan EES-samstarfsins, reyna og gera með ýmsum hætti útboð sín þannig að þau auðvelda þarlendum fyrirtækjum að bjóða í verkin. Ég tel að Íslendingar hafi verið fullfastheldnir á hin ýtrustu skilyrði sem EES-samningurinn hefur sett okkur og við höfum ekki nýtt okkur þann sveigjanleika sem hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Við skulum gæta að því að mörg af þeim verkum sem ríkisvaldið er að bjóða út eru gríðarlega stór á íslenskan mælikvarða og geta ráðið úrslitum um viðgang fyrirtækja og jafnvel heilla iðngreina. Mun ég koma að því síðar.

En þetta snertir ekki aðeins afkomu fyrirtækjanna heldur er hér um atvinnuhagsmuni að ræða, vinnu fyrir landsmenn okkar. Sárt er að horfa til þess að íslenskir iðnaðarmenn og starfsmenn í íslenskum framleiðslufyrirtækjum þurfi að sjá á eftir stórverkefnum og atvinnu úr landi þegar þess hefur jafnvel ekki verið gætt að nýta þetta svigrúm sem ég tel að sé innan EES-samningsins.

Eins og alþjóð veit erum við ekki aðeins bundin af EES-samningnum heldur af ýmsum fjölþjóðlegum skuldbindingum sem snúa að viðskiptum og má segja að sá málflutningur sem hér er hafður uppi lúti einnig að öðrum þeim samningum sem við erum aðilar að.

Ég vil aðeins gera grein fyrir og nefna nokkur af þeim atriðum sem ég á við þegar ég tala um svigrúm. Í útboðum er m.a. hægt að taka ýmislegt fram um efnisnotkun, um afhendingartíma, um viðhald, um eftirlit og prófanir o.fl. þar sem farið er fram á það í útboðslýsingunni að slíkt skuli gert við íslenskar aðstæður eða í nágrenni við Ísland eða með tilliti til íslenskra aðstæðna, svo sem veðurs eða annarra þátta og á þann hátt er íslenskum fyrirtækjum gert auðveldara að uppfylla þessi skilyrði, en keppinautar okkar á alþjóðlegri grund eiga þar mun örðugra uppdráttar. Einhverjum kann að finnast að hér sé verið að reyna að smeygja sér undan heiðarlegri samkeppni en það er alls ekki. Ég er alls ekki að mæla með því að við göngum með nokkrum hætti á svig við það sem við höfum samið um. En fyrr má nú aldeilis vera að við nýtum okkur ekki sömu tækifæri og sömu aðferðir og keppinautar okkar gera þegar þeir fara með mál sín í útboð.

[15:45]

Eins og alþjóð veit höfum við ekki leyfi til þess að taka inn í útboð okkar og val á verktökum ýmsa þætti sem svo sannarlega skipta okkur máli þegar við horfum á þjóðhagslegan ávinning. Höfum við ekki heyrt að undanförnu rætt um að það sé ávinningur fyrir Íslendinga ekki aðeins að taka lægsta tilboði heldur að við horfum til þess að vinnan haldist hér? Þar með haldast skatttekjur ríkisins og sveitarfélaganna hér og margvíslegur annar beinn og óbeinn ávinningur fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög og ríki kemur í vasa okkar okkur til eflingar. Ekkert af þessu má taka með í reikninginn vegna þeirra skuldbindinga sem við erum aðilar að. Ég er ekki að mæla með því að við göngum þarna með nokkrum hætti á svig við EES-samninginn með því að reikna þetta inn, en vissulega er sárt að horfa til þess að þetta eru vinningar sem við erum að missa af með því að verkin fara úr landi. Að sjálfsögðu verða erlend fyrirtæki og erlend ríki að sætta sig við hið sama.

Hæstv. forseti. Ég tel að ríkisstjórnin eigi að hafa hér frumkvæði. Það frumkvæði felst í því að móta útboðsstefnu sem síðan verður höfð í hávegum og í fyrirrúmi þegar ráðuneyti og embættismenn bjóða út verk af stærra tagi. Þetta mun leiða til þess að setja yrði nýjar og skýrari vinnureglur um verkútboð. Þarna hlýtur Framkvæmdasýsla ríkisins m.a. að koma að verki og mjög hlýtur að verða hlustað á tillögur hennar hvað þetta varðar.

Ég læt þá lokið almennri umfjöllun um þáltill. en vil þó sérstaklega vegna þeirrar umræðu sem verið hefur að undanförnu draga út einn þátt í iðnaði sem okkur hefur verið tíðrætt og sem mun verða mjög mikilvægur þegar fram í sækir. Sennilega geta flestir sér til um hvað átt er við. Hér er rætt um íslenskan málm- og skipasmíðaiðnað þar sem við höfum árum saman orðið að horfa á eftir stórverkefnum til útlanda án þess að fá rönd við reist. Ýmist hefur það verið vegna þess að skipaviðgerðir, bygging og smíði skipa og viðhalds fer til landa utan EES-samningsins, til Kína, Póllands eða Chile og ekki er ég að lasta þau verk sem þar eru unnin og þann ávinning sem fæst af því að ná þar góðum tilboðum. En það er sárt til þess að vita að við höfum að undanförnu orðið að sjá af varðskipunum okkar úr landi á meðan við horfum jafnvel á verkefnaskort og atvinnuleysi í málm- og skipasmíðaiðnaði. Sem þingmaður Reykvíkinga hlýt ég að hafa áhyggjur af þessu. Reykvíkingar hafa um árabil reynt að byggja upp málm- og skipasmíðaiðnað en átt við ramman reip að draga m.a. vegna þess sem ég hef hér um rætt. Á Akureyri hafa menn sömuleiðis verið að berjast við þessar erfiðu aðstæður. Einnig má nefna Akranes og við getum að sjálfsögðu talað um Hafnarfjörð.

Í þessum þingsal var fyrir skömmu rætt um viðgerðir á varðskipunum og þeirri umræðu er væntanlega ekki lokið vegna þess að við fáum misvísandi upplýsingar um það hvort lægsta tilboð kom frá íslenskum aðilum eða hvort það var það tilboð sem tekið var og leiddi til þess að skipunum er siglt til viðgerða erlendis. Ég var einn af þeim sem tóku þátt í þeim umræðum og ég er einn af þeim sem hafa talið að við hefðum getað nýtt okkur betur þann sveigjanleika sem við höfum innan allra viðskiptasamninga og sáttmála til að ná þeim verkefnum hingað til landsins.

Hið stóra verk er þó fram undan en það er smíði íslensks varðskips. Íslenskur málm- og skipasmíðaiðnaður og Samtök iðnaðarins hafa á undanförnum árum verið að leita eftir því að við gætum haldið því gríðarlega stóra verkefni í landinu m.a. vegna þess að hér sé um varðskip að ræða sem má með sönnu flokka undir löggæslu- og hernaðartæki sem gegnir sambærilegu hlutverki og þau skip sem aðrir heimila ekki að smíðuð séu í útlöndum. Við eigum því kinnroðalaust að berjast fyrir því að smíði hins nýja varðskips verði á Íslandi og við eigum kinnroðalaust að ætlast til þess að ríkisstjórn okkar, ráðuneyti og embættismenn sem sinna útboðinu nýti allan þann sveigjanleika sem mögulegt er innan EES-samningsins eða hvaða samnings sem vera skal til að málm- og skipasmíðaiðnaður okkar eigi þar sem allra bestu möguleika.

Ég fagna því að í þeirri umræðu sem var hér um daginn töluðu hæstv. ráðherrar, bæði iðnrh. og dóms- og kirkjumrh. en varðskipin heyra undir dómsmrn., á þann veg að reynt yrði þegar að þessu kæmi að fá þessi verk hingað. Ég tek aðeins þetta dæmi vegna þess að þetta mæðir á okkur núna en ég er svo sannarlega í þessari þáltill. að tala um almenna stefnu sem muni nýtast til þess að byggja upp íslenskan iðnað jafnhliða því að við stöndum við skuldbindingar okkar í EES.

Virðulegi forseti. Ég læt þá staðar numið í framsögu um þetta mál. Það má enginn ætla það að ég sé að tala fyrir einangrunarstefnu eða sveigja frá því sem okkur hefur verið til trúað í samningum og samskiptum við aðrar þjóðir. Þar verðum við að standa við okkar hlut eins og við ætlumst til að staðið sé við öll skilyrði þegar við eigum í samkeppni við aðra. En, hv. þingmenn, stöndum saman um að styðja íslenskan iðnað innan þeirra marka sem viðskiptasamningar okkar leyfa. Ég hvet ríkisstjórnina til að taka þessu máli vel þegar það verður væntanlega samþykkt frá þinginu og embættismenn fá það til frekari vinnslu.