Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:38:40 (5177)

2001-03-05 15:38:40# 126. lþ. 81.6 fundur 481. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (samvinnufélög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vildi svo sérkennilega til að eftir að ég hafði beðið um andsvör við ræðu hæstv. ráðherra þá kom hann að því sem ég ætlaði að spyrja hann um, þ.e. hvort þetta kallaði ekki á að farið yrði yfir það hvernig einstaklingar gætu breytt sínum rekstri í hlutafélög. Þar eru nákvæmlega sömu hagsmunir á ferðinni og hugað er að með þessum breytingum. Þetta er mjög snúið mál fyrir viðkomandi aðila.

Það má segja að það sé sama hvort þeir hafi í rekstri sínum, þó hann hafi alltaf verið færður upp sem sérfyrirtæki undir kennitölu viðkomandi, eignast einhverjar eignir eða hvort reksturinn ber einhverjar skuldir, þ.e. að eigið fé sé í mínus vegna afskrifaðra eigna. Í báðum tilfellunum bera viðkomandi eigendur skaða af því að færa fyrirtækið yfir í hlutafélag, annars vegar með því að viðurkenna persónulegar skuldir fyrirtækisins ef eigið fé er ekki samkvæmt reikningi yfir mörkum og hins vegar með því að þannig er litið á að þeir hafi selt hlutafélaginu allar eignir fyrirtækisins. Þeir verða þar með að borga skatt af öllu saman ef stofnað er hlutafélag. Ég tel að það hljóti að verða að vísa til jafnræðis þegnanna í tengslum við þessar breytingar. Ég spyr hæstv. ráðherra þess vegna að því hvort menn hafi þarna fundið leið sem talist getur fær til að koma til móts við þennan hóp. Sá hópur er býsna stór sem verið hefur í einkarekstri og hefur auðvitað orðið að borga hærri skatta eftir að breytingarnar voru gerðar á skattkerfinu.