Umgengni um nytjastofna sjávar

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:54:22 (5184)

2001-03-05 15:54:22# 126. lþ. 81.7 fundur 504. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (veiðar umfram aflaheimildir) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem er til umræðu er um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og snýr að eftirliti með veiðum skipa. Breytingin er í raun og veru eingöngu til þess að auðvelda framkvæmd þeirra laga og færa í betri farveg og að útgerðarmenn fái meira svigrúm og geti þar af leiðandi brugðist við án þess að verða fyrir veiðileyfissviptingu og tímatöf frá veiðum.

Út af fyrir sig er ekkert á móti þessari breytingu. Hún er í sjálfu sér eðlileg miðað við þau lög og framkvæmd sem verið hefur í gildi og hvaða agnúar hafa fylgt þeirri framkvæmd laganna sem eru í gildi. Ég segi fyrir mína parta að ég tel að þessi breyting sé til bóta varðandi þá framkvæmd sem verið hefur og hún sé eðlileg með hliðsjón af reynslunni sem verið hefur af lögunum um umgengni um nytjastofna sjávar og framkvæmd Fiskistofu og eftirfylgni á þeim lögum. Ég held að þarna sé verið að gera eðlilega aðlögun og hefur það engin áhrif á skoðanir mínar á fiskveiðistjórn að öðru leyti. Ég tel eðlilegt að þegar verið er að vinna eftir ákveðnum lögum sé það gert á þann hátt að sem eðlilegast vinnuumhverfi sé fyrir þá sem við eiga að búa burt séð frá því hvort ég sem slíkur er hlynntur nákvæmlega því kerfi sem verið er að stjórna fiskveiðunum með. En menn eiga að búa við þessi lög og eðlilegt er að gerðar séu á þeim þær breytingar sem gera þau betur úr garði til að við þau megi búa og eftir þeim vinna. Þar af leiðandi tel ég að umrætt frv. sé í raun og veru til bóta eins og það er fram sett og sé ekki ástæðu til annars en mæla með því.