Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 17:15:43 (5192)

2001-03-05 17:15:43# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[17:15]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér erum við að ræða frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta mál er lagt fram af þingflokki Samfylkingarinnar. Í rauninni tel ég að hér séum við að ræða eitt af stærri málunum sem eru á döfinni í þjóðfélagi okkar og fullt tilefni sé til að ræða það hér, stóran hluta af þessum degi, og vonandi að sem flestir komi og taki til máls.

Það eru nokkur atriði í frv. sem ég ætla að koma að síðar í ræðu minni eða í seinni ræðu minni, herra forseti. En mig langar aðeins vegna orða hv. þm. Gísla S. Einarssonar áðan um upphaf kerfisins að segja að ég held að það sé þörf lexía fyrir okkur að fara örstutt yfir aðdraganda kerfisins. Ég er ekki að segja að ég geti fullyrt að það sé skilningur allra á því hvernig kerfið varð til en það er a.m.k. minn skilningur og var ég nú þátttakandi í upphafi við að vinna að þeirri breytingu. Eins vil ég líka minnast á hvaða ástæður lágu þar að baki. Ég held að það sé þarft fyrir okkur þegar við ræðum hér nokkurt tímamótafrv., því þó að ég sé ekki í öllum atriðum nákvæmlega sammála því hvernig Samfylkingin leggur einstök atriði upp þá held ég að stefnumótunin sem slík sé eitthvað sem getur alveg gengið upp ef menn vilja fara þessa leið. Reyndar er stefnumótunin í þessu frv. að sumu leyti alls ekki ólík því sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til hvernig mætti fara á milli svona kerfa, þó að við viljum gera það mun skarpar en hér er lagt til og með talsvert stífari reglum sem ég mun víkja að síðar í máli mínu.

Ég ætla hins vegar aðeins í upphafi máls míns að rekja aðdragandann að því að kvótakerfið var sett á árið 1984 og hvaða hugsun lá að baki, a.m.k. í upphafi, og hvað fór þar á undan. Eins og ég sagði áðan mun ég halda áfram í síðari ræðu minni ef tíminn nægir ekki í þeirri fyrri.

En eins og ég sá aðdragandann að þeirri ákvörðun okkar að gera tilraun til að stjórna fiskveiðum með kvótakerfi haustið 1983 og þeirri ákvörðun sem síðan var tekin á árinu 1984, var það í fyrsta lagi í rauninni vegna hræðslu fiskifræðinga við minnkandi þorskafla á árinu 1983 sem varð til þess að fram komu hugmyndir um að þorskaflinn á árinu 1984 yrði skorinn niður fyrir 200 þús. tonn, jafnvel allt niður í 180 þús. tonn. Þessar hugmyndir fiskifræðinga urðu til þess að nokkur hræðsla greip um sig í þjóðfélaginu við að þorskstofninn gæti hrunið. Haustið 1983 gekk mjög illa að veiða þorsk, mjög illa, ég stundaði þá fiskveiðar á togara fyrir vestan.

Það voru svo sem ástæður fyrir því, m.a. var loðnubrestur þetta ár og þorskurinn var mun léttari en hann hafði verið á undanförnum árum. Samanburður á jafnstórum fiski á árinu 1983 og fram á árið 1984 sýndi að þorskurinn hafði lést um 25%. Sama stærð af fiski var 25% léttari en hún hafði verið tveimur árum áður. Þetta m.a. og ásamt minnkandi aflabrögðum olli mönnum miklum áhyggjum um hvað væri eiginlega að gerast varðandi þorskstofninn. Niðurstaðan varð sú að mat fiskifræðinga haustið 1983 var að fiskstofninn hefði ekkert stækkað sl. tvö ár heldur bara minnkað.

Þessar tölur sem um var talað, 180--200 þús. tonn, var þorskafli sem menn höfðu ekki séð síðan í seinna stríðinu. Ekki hafði verið veiddur svona lítill þorksafli, eins og fiskifræðingarnir voru að tala um haustið 1983 og í byrjun árs 1984, frá því í stríðinu 1942--1944 þegar allir útlendingar hurfu héðan af miðunum og við Íslendingar vorum einir að veiðum.

Við upplifðum reyndar ekki þá tíma aftur í þorskveiðisögunni fyrr en kvótinn var skorinn harkalega niður, mig minnir 1994, niður í 155--160 þús. tonn. Það geta menn svo kallað árangur af kvótakerfinu í 15 ár eða hvað, hvar við erum staddir núna, í 250--260 þús. tonnum þegar allt verður talið, veiðar krókabátanna og allt sem hugsanlega getur við bæst.

En þetta var nú aðdragandinn. Sú umræða sem var haustið 1983 olli nokkurri svartnættissveiflu og menn gripu til þess að segja sem svo: Ja, við höfum verið í skrapdagakerfi undanfarin ár og ef við ætlum að fækka sóknardögum í þorskinn í skrapdagakerfinu þá þurfum við að skera svo hressilega niður að menn sáu ekki alveg hvernig það mundi ganga upp.

Niðurstaðan varð sú að við settum sjö fisktegundir inn í kvótakerfi, þorsk, ýsu, ufsa, karfa, grálúðu, steinbít og skarkola. Steinbíturinn og skarkolinn voru síðar teknir út enda voru steinbíturinn og skarkolinn í upphafi ársins 1984 notaðir sem uppbót fyrir þau skip sem urðu fyrir mestri skerðingu í þorski eins og m.a. togarar á Vestfjörðum og Norðurlandi og vertíðarbátar. Þeir fengu sérstaklega meiri úthlutun í skarkola og steinbít og þær tegundir voru notaðar sem nokkurs konar uppbót.

Þetta er aðdragandinn að því kvótakerfi sem við höfum í dag. En þar áður höfðum við í stuttan tíma, nokkur ár, verið með skrapdagakerfi og skrapdagakerfið náði í raun og veru alveg þeim markmiðum sem því var ætlað meðan það var í gildi því að það var bara beinlínis sett á til að ýta togaraflotanum í að veiða karfa og grálúðu. Hvers vegna var það gert? Það var gert vegna þess að þýski flotinn, sovéski flotinn og austurþýski flotinn voru að hverfa af þeim veiðum þegar útfærsla landhelginnar tók gildi í 200 mílur og þar var einfaldlega sóknarfæri sem eðlilegt var að við sæktum í og við Íslendingar gerðum það svo hressilega eins og flest sem við gerum í þessum málum að innan fimm, sex ára vorum við farnir að stunda það miklar veiðar á karfa og grálúðu að mönnum stóð ekki alveg á sama. En kerfið náði algjörlega þeim markmiðum að ýta flotanum í sókn á þessum tegundum og við tókum yfir miklar veiðar á karfa og grálúðu og veiddum árum saman tugi þúsunda tonna af grálúðu ásamt því að veiða hátt í 100 þús. tonn af karfa. Þetta var árangurinn af þeirri veiðistýringu og togarasjómenn náðu mjög fljótt tökum á því að veiða þessar tegundir en nokkrum árum áður hafði ég sjálfur staðið í því að sigla í gegnum m.a. flotann á Hampiðjutorginu og ekki borið það við að stinga þar niður trolli vegna þess að við héldum að þetta væri bara ekki hægt, mennirnir að asnast niður á fimm og sex hundruð faðma dýpi.

En það er nú svona, sumar reglur eru til góðs og þessi regla varð til góðs og þetta eru í rauninni verðmætustu tegundirnar sem frystitogaraflotinn veiðir í dag og þær tegundir sem enginn ágreiningur er um að frystitogaraflotinn veiði, þ.e. grálúðu og karfa. Þetta er örlítil söguupprifjun, herra forseti. Ég tel því að skrapdagakerfið hafi í raun og veru náð tilgangi sínum að þessu leyti.

En það sem við ætluðum að gera með því að setja kvótakerfið á það var jú að treysta atvinnu í landinu og tryggja það að skipin gætu haldið á veiðar. Það var markmiðið upphaflega þegar við settum kvótakerfið á. Hvers vegna leyfi ég mér að fullyrða það? Jú, ég leyfi mér að fullyrða það vegna þess að í fyrsta lagi var kvótakerfið sett á til reynslu í eitt ár og síðan ætluðu menn að meta af því áhrifin og síðan voru í kvótakerfinu þegar það var sett á ýmsar áherslur sem áttu að tryggja það að flotinn væri í sókn og að flotinn héldi uppi atvinnu í byggðunum. Þessar áherslur, um að halda uppi atvinnu og koma í veg fyrir að kvótinn færi frá byggðunum, má m.a. sjá í því að framsalið var ekki leyft úr byggð nema því aðeins að fyrir lægi samþykki bæjarstjórnar og samþykki sjómannafélagsins á þeim stað sem kvótinn átti að fara frá. Það var sem sagt skilyrði þess að hægt væri að færa kvóta frá byggð að samþykki þessara tveggja aðila lægju fyrir. Þar að auki þurfti síðan, eftir að þessi samþykki lágu fyrir, sérstakt samþykki ráðuneytisins, að fengnu áðurnefndu samþykki, til þess að það mætti færa kvótann úr byggðarlaginu.

Auk þess var í gildi fyrstu sjö ár kvótakerfisins sérstakt sóknarmark. Það voru nefnilega tvö fiskveiðikerfi í gildi fyrstu sjö árin, það var bæði kvótakerfi og sóknarmark. Og þeir sem höfðu minni aflaheimildir eða voru að byrja í útgerð gátu oft og tíðum keypt sér skip sem höfðu tiltölulega litlar heimildir og völdu sér þá sóknarmark og töldu með því að þeim væri gefinn kostur á að endurraða sér í afköstum skipanna og í veiðar fyrir sitt byggðarlag. Og það var alveg rétt, það var svoleiðis. Menn gátu endurraðað sér miðað við hvað þeir voru duglegir fiskimenn og hvað þeim tókst vel að gera út. Það var auðvitað viðurkenning á því að það skyldi ekki vera kvótakerfið eitt sem réði heldur skyldi hæfni manna til veiða einnig hafa mikil áhrif á það hvort þeir kæmust áfram í þessari grein. Illu heilli var það sjónarmiði lagt til hliðar við leiðarstein síðar í sögu kvótakerfisins og eingöngu tekið upp frjálst framsal aflaheimilda á árinu 1990.

Það var annað sem var í þessu kvótakerfi í upphafi. Framsal á kvóta var óheimilt frá sóknarmarksskipum. Þegar meiri hluti togaraflotans var búinn að velja sér sóknarmark eftir fyrstu fimm, sex árin í þessu stýrikerfi þá var það orðið þannig að stór hluti af flotanum fékk ekki að framselja, hafði engar heimildir til þess samkvæmt lögunum, enda voru þeir í sérstöku sóknarkerfi.

Hvert var þá markmiðið með þessum lögum í upphafi? Markmiðið var að skipunum skyldi haldið til veiða því að eftirfarandi ákvæði var líka í lögunum: Skip sem ekki var haldið til veiða í eitt ár mátti ekki framselja kvóta árið á eftir. Þannig var það í upphafi. Skipi átti að vera haldið til veiða og það var markmið laganna að halda skipum til veiða og halda uppi atvinnu í landinu. Markmiðið var að stýra aflanum og tryggja jafnframt að skipin væru gerð út og að atvinna héldist. Þetta var upprunalegt markmið kvótakerfisins sem menn hafa gleymt í allri þessari umræðu.

Þessi markmið voru síðar sett í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Hvernig hljóða þau þá? Þau hljóða þannig að það skuli byggja upp fiskstofnana --- eins mikið öfugmæli og það hefur nú verið varðandi botnfiskstofnana sem ekki hafa verið byggðir upp undir þessu kvótakerfi. Og síðan þegar sóknarmarkið hafði verið afnumið og búið að gefa allt kvótafrelsið inn í lögin þá var einnig sett í lögin: ,,að tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu``.

Hvílíkt öfugmæli. Þegar sóknarmarkið og öll höftin sem voru í kerfinu til þess að reyna að halda rétti byggðanna inni og halda því að byggðirnar héldu atvinnurétti sínum og að skip væru gerð út til fiskveiða og það væri meginmarkið laganna að skip væru gerð út til fiskveiða, þá voru þessi orð sett í lögin: Að byggja upp fiskstofnana og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Þá voru markmiðin sett inn, en hins vegar verður málið í reynd bara eyðibyggðastefna.

Ég ætla að leyfa mér að kalla þessa framkvæmd kvótakerfisins eins og hún er óbreytt í dag, eyðibyggðastefnu og ekkert annað. Hún getur ekkert annað en rifið undan fleiri byggðum en nú er þegar er búið að gera. Það er ekki rétt að mínu viti að hafa þannig fiskveiðistjórnarkerfi að það rífi undan byggðunum til þess að tryggja einhverjum þrem, fjórum stöðum á landinu trausta útgerðarstöðu. Það er sjónarmið sem ég fellst ekki á, að öðrum byggðum skuli slátrað. Að fjöldamargar smærri byggðir séu skornar niður við trog til þess að hægt sé að byggja upp sterka útgerðarstöðu á fáum stöðum og að framtíðarsýnin sé sú að við munum búa hér við veiðikerfi þar sem stór hluti aflaheimildanna verður að fjórum eða fimm fyrirtækjum. En það er sú framtíðarsýn sem maður heyrir ævinlega gerða grein fyrir þegar maður hlustar á þá sem tala fyrir hönd stórútgerðanna.

[17:30]

Þess vegna má segja að byggðastefnan sé því miður í framkvæmd að stærstum hluta til það sem ég hef leyft mér að kalla eyðibyggðastefna og í algjörlega öfugri framkvæmd miðað við það markmið sem sett var inn í lögin 1990. Vonandi eru fleiri en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson farnir að sjá það þótt þeir eigi kannski erfiðara með að viðurkenna það en hann. Hann viðurkenndi það a.m.k. mjög skilmerkilega í þessum ræðustóli fyrir ekki löngu að ekki væri búandi við áframhaldandi framkvæmd fiskveiðikerfisins þar sem sumum væri gert að vera leiguliðar, krjúpandi við fótskör greifanna til að fá til sín aflaheimildir á okurverði og gætu síðan ekki framfleytt fjölskyldum sínum af því að stunda þær fiskveiðar sem menn hafa stundað árum og áratugum saman og ég tek undir þau orð hans.

Þannig var þessi saga í upphafi og ætla ég ekki að rekja hana miklu lengur í upphafi máls þó að vissulega væri ekki vanþörf á því að fara oftar yfir hana því að menn eru æðifljótir að gleyma í pólitík. Núna virðist aðalmarkmið vera að viðhalda þessu kerfi svo til óbreyttu og er þá vitnað í nýjustu yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. um að viðhalda þurfi kerfinu að sem mestu óbreyttu, það sé það sem tryggi trausta atvinnu og byggð í landinu og byggi upp fiskstofnana. Fróðlegt væri að heyra jafn velmenntaðan mann í líffræði dýra og hann gefa okkur hinum skýringu á því hvernig á að fara að því að byggja upp fiskstofna eftir þessu kerfi og hvernig það hefur tekist til þar sem allir fiskstofnar, botnfiskstofnarnir hafa verið á niðurleið. Þetta held ég að menn ættu að gera sér ljóst og því miður hefur ekki orðið neinn sýnilegur árangur af framkvæmd fiskveiðistjórnarkerfisins af því að byggja upp botnfiskstofnana og heldur ekki af því að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Þess vegna á frv. eins og Samfylkingin leggur hér fram fullan rétt á sér og í raun og veru alveg furðulegt að það skuli vera jafnlítill áhugi fyrir því að fylgjast með umræðum um þessi mál og virðist vera í hv. Alþingi.

Ég ætla í stuttu máli að víkja að því sem mér finnst að þurfi að skoða í frv. Samfylkingarinnar. Í fyrsta lagi vík ég að því sem mér finnst slæmt í þessu frv. og það er að áfram skuli vera hægt að leigja aflaheimildirnar milli manna. Ég held að þessi framleiga aflaheimilda sé einhver mesti galli sem settur hefur verið inn í þessa löggjöf. Ég skil vel hvernig Samfylkingin setur þetta upp en ég er hins vegar ósammála því að þetta kerfi skuli fá að halda áfram, bæði á aðlögunartímanum, sem þeir leggja til að verði tíu ár og síðan áfram, ef ég skil málið rétt, með því að þeir sem leigja til sín aflaheimildir geti svo haldið áfram að framleigja. Ég tel að framkvæmdin eigi alls ekki að vera þannig.

Hvað er það sem útgerðarmenn þurfa? Jú, þeir þurfa veiðirétt, þeir þurfa að vita að þeir geti nálgast veiðirétt. Og geti hvað? Farið og fiskað. Það er það sem þeir þurfa að vita. Annað þurfa þeir ekkert að vita. Ef búin er til aðferð sem gerir það að verkum að þeir geti tryggt sér veiðirétt og horft eitthvað fram í tímann, eitt eða tvö ár til að nýta sér veiðiréttinn, þá tel ég að það sé nægjanlegt.

Ef þeir vilja hins vegar losa sig við veiðrétt sem þeir hafa tekið til sín þá á að gera þeim það auðvelt. Ekki með því að setja á fót þennan frjálsa braskmarkað, sporin í því efni hljóta að hræða, heldur með því að setja upp leigumarkað þar sem menn geta skilað inn veiðirétti og fengið endurgreiðslu frá ríkinu þaðan sem þeir fengu hann og síðan yrði hann leigður út aftur. Því það kann að vera mjög eðlilegt að á slíkum markaði þurfi að setja stýrireglur. Ég hef m.a. vikið að því í frv. Samfylkingarinnar varðandi byggðirnar að það þurfi að vera hægt að stýra og það væri upplagður vettvangur til þess að geta stýrt bæði til flota og byggða.