Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:25:43 (5207)

2001-03-05 18:25:43# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hafði greinilega láðst í ræðu sinni þegar hann fjallaði um þjóðina og ríkisstjórnina að segja okkur frá því að hann gerði ekki endilega ráð fyrir lýðræðisskipan þegar hann var að setja dæmið svona upp vegna þess að við hljótum að ætla að við lýðræðisskipan a.m.k. eigi það að fara saman, vilji þjóðar og ríkisstjórnar.

Hins vegar finnst mér orðnotkun hv. þm. svolítið truflandi þar sem hann talar allaf um eign. Hann talar alltaf um eign útgerðarmanna, það eigi að taka af þeim eign þeirra. Er hv. þm. á þeirri skoðun að úthlutaðar veiðiheimildir, úthlutaðar aflahlutdeildir séu eign viðkomandi útgerðarmanna þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða og þrátt fyrir þá dóma sem gengið hafa, m.a. hæstaréttardóma, í þveröfuga átt?