Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 13:58:37 (5225)

2001-03-06 13:58:37# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Maður getur sjálfsagt sagt sem stundum áður að það sé með blendnum tilfinningum sem maður ræðir málefni þessa fyrirtækis, Kísiliðjunnar við Mývatn. Þetta fyrirtæki hefur verið umdeilt og starfsemi þess á svæðinu frá fyrstu tíð og sérstaklega þó námugröfturinn af botni Mývatns í því sérstæða lífríki sem þar er og deilur um áhrif þessa inngrips í lífríkið á náttúruna hafa verið háværar og standa út af fyrir sig enn.

Nú er það svo með kísilverksmiðjuna eins og svo margt fleira að ákvörðun um að reisa hana í Mývatnssveit var að sjálfsögðu barn síns tíma.

[14:00]

Ég hef stundum spurt menn að því hvort þeim þætti líklegt að slík ákvörðun yrði tekin í dag, ef menn bönkuðu nú á því herrans ári 2001 á dyr hjá stjórnvöldum og færu fram á að reisa eitt stykki verksmiðju af þessu tagi og hráefni til vinnslunnar yrði sótt á botn vatnsins. Þykir mönnum líklegt að fallist yrði á slíkt eins og viðhorfin eru til umhverfismála í dag? Ég held að svarið sé nokkuð sjálfgefið. Langlíklegast er að aldrei mundi á slíkt reyna og ekki hvarfla að mönnum að fara af stað með slíkan atvinnurekstur við jafnviðkvæmar aðstæður og þarna eru, í einni helstu náttúruparadís landsins, sem Mývatnssveit og nágrenni, Laxá og allt umhverfi og lífríki óumdeilanlega eru.

Tilvist verksmiðjunnar er hins vegar staðreynd. Hún hefur haft mikil áhrif á atvinnulíf á þessu svæði, ekki bara í Mývatnssveit, þar sem hún er burðarás atvinnunnar á móti landbúnaði og ferðaþjónustu, heldur og á Húsavík, í Suður-Þingeyjarsýslu allri og jafnvel á stærra svæði. Að sama skapi hefur sú óvissa sem uppi hefur verið um framtíð þessa fyrirtækis verið ákaflega bagaleg fyrir þetta svæði um langt árabil. Auðvitað hafa deilur þær sem verið hafa um starfsemina ekki verið skemmtilegar. Samfélagið hefur meira og minna verið þverklofið í viðhorfum sínum til málsins frá fyrstu tíð. Það er að sjálfsögðu ekki ástand sem neinn óskar sér. Segja má að ákvörðunin um að leyfa byggingu Kísiliðjunnar á sínum tíma sé dæmi sem menn mættu vel hafa í huga nú um stundir og í framtíðinni varðandi þær aðstæður sem menn geta lent í með því að fara út í umsvif af þessu tagi, sem byggja á inngripi í náttúruna og lífríkið með afleiðingum eða áhrifum sem ekki eru alltaf fyrirsjáanleg eða auðvelt að meta og spá fyrir um.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér hefur ekki þótt tíminn frá því að ljóst mátti vera, þ.e. síðustu 12--15 ár a.m.k., að um framtíð þessa fyrirtækis ríkti tvísýna til lengri tíma litið, hafa nýst mönnum vel til að huga að öðru í staðinn og undirbúa þá mögulegu niðurstöðu sem mér hefur lengi þótt blasa við að starfseminni yrði að ljúka þannig að samfélagið, byggðarlagið, atvinnulífið á þessu svæði væri betur í stakk búið til að takast á við slíkar breytingar. Þess vegna má segja, herra forseti, að það sé mikið fagnaðarefni --- menn hafa auðvitað bundið við það vonir lengi --- að sú lausn kunni að finnast í málinu að umdeildasta þætti starfseminnar, námugreftrinum á botni vatnsins, lyki en eftir gæti staðið iðnaðarstarfsemi eða umsvif sem þýddu að byggðarlagið yrði ekki fyrir áföllum í atvinnulegu tilliti.

Herra forseti. Þetta frv. og þeir möguleikar sem liggja þar á bak við eru að mörgu leyti fagnaðarefni verði þetta mál til þess að hinum umdeilda námugreftri ljúki og betri sátt skapist um þann atvinnurekstur þar yrði til staðar í breyttu formi. Ég bind vonir við að svo geti orðið og fagna því ekki síður en hver annar ef loksins hillir undir lausn í þessu erfiða máli sem hefur í sér fólgna slíka möguleika.

Í þessu sambandi má reyndar spyrja hvernig á því stóð að þessi kostur var ekki rækilegar skoðaður fyrir einu og hálfu til tveimur árum þegar hann var uppi á borðinu. Þá var sá möguleiki að því er virtist í hendi að hér risi tilraunaverksmiðja á þessu sviði sem nú er verið að byggja í Noregi. Ég leyfi mér að inna eftir því hvort það sé rétt, sem þráfaldlega heyrist, að ein af skýringunum hafi verið áhugaleysi þáverandi ráðamanna iðnaðarmála sem hafi stillt dæminu þannig upp að slík starfsemi yrði að koma til viðbótar hinu hefðbundna kísilgúrnámi en ekki í staðinn fyrir það og að á því hafi málið m.a. strandað.

Þetta mál er a.m.k. ekki nýtt af nálinni í þeim skilningi að til staðar hefur verið áhugi þessa fyrirtækis á því að skoða þann möguleika að breyta starfseminni og nýta að hluta þá aðstöðu sem fyrir er og orkuna en þó ekki síst mannafla og þekkingu til annars konar iðnaðarstarfsemi eða úrvinnslu á kísil en þarna hefur farið fram.

Auðvitað er ýmislegt óljóst í framhaldi málsins. Að sjálfsögðu verður að bíða þess að það skýrist. Ég vil aftur á móti láta það koma fram að ég er stuðningsmaður þess að á það verði látið reyna að þessi kostur gangi upp, að starfseminni verði breytt, dælingunni af botni vatnsins hætt en annars konar úrvinnsla á kísilhráefni fari þarna fram, og vonandi, ef vel tekst til, með ekki minni og heldur meiri framtíðarmöguleikum en fólgnir væru í óbreyttri áframhaldandi vinnslu á kísilleðju af botni vatnsins. Óvissan tengist framhaldi mála næstu tvö til þrjú árin og hvernig skörunin verður, hvernig núverandi starfsemi hverfur úr sögunni og hve lengi þarf að halda henni áfram, hvaðan hráefnið kemur þá til þeirrar vinnslu og hvernig til tekst með það sem við á að taka.

Ég vil einnig taka fram, herra forseti, það er að sjálfsögðu einnig fyrirvari af minni hálfu, að ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér mikið þá starfsemi sem þarna á í hlut, þ.e. hvers eðlis hún er í einstökum atriðum, hvernig hún kemur mönnum fyrir sjónir í umhverfislegu tilliti, hvaða efnanotkun fer þarna fram og annað því um líkt. Það þarf að sjálfsögðu að athuga, skoða og meta í tengslum við hin nýju áform.

Að síðustu væri fróðlegt, herra forseti, að heyra nánar um áform manna um aðgerðir til annarrar uppbyggingar til styrkingar atvinnulífinu á þessum slóðum. Ég tek það fram að ég er að sjálfsögðu sammála því að ráðstafa söluandvirði kísilverksmiðjunnar til þeirra hluta og þó meira væri og fyrr hefði verið. Sömuleiðis er ég fylgjandi því að kísilgúrsjóður fái áfram nokkrar tekjur næstu árin. Í reynd hefur það verið mesta hörmung sem hann hefur haft til skiptanna. Það hafa verið allt of litlir fjármunir til að verulega muni um það, fáeinar milljónir á ári má segja. Þau mál virðast óljós ef marka má þetta frv. og mætti spyrja hvort þau mál hafa eitthvað skýrst síðan frv. var sett saman eða greinargerð þess, hvort fjármununum, söluandvirðinu samkvæmt 1. gr., eigi að verja til einhverra sérstakra verkefna eða hvort þeir renni í kísilgúrsjóð og endurúthlutist þaðan ásamt öðru fé sem þar verður til skiptanna. Mér sýnist frv. þannig úr garði gert að hvort tveggja sé haft opið. Fyrir því kunna að vera einhver rök en fróðlegt væri að heyra hvort þau áform hafi eitthvað skýrst.

Ríkið ber auðvitað mikla ábyrgð á þeim aðstæðum sem þarna hafa skapast. Það var frumkvöðull að því, sem aðaleigandi, að þessi verksmiðja reis á þessum stað og hafði þá umbyltingu í för með sér fyrir viðkomandi samfélag sem raun ber vitni. Það getur að sjálfsögðu ekki hlaupið frá ábyrgð sinni í þeim efnum, enn síður en ella væri og breytti svo sem ekki miklu þó um hefði verið að ræða fyrirtæki sem alfarið hefði verið í eigu einkaaðila. Áhrif þess á samfélagið og atvinnulífið á öllu þessu svæði eru augljós og í byggðalegu tilliti, félagslegu og á allan hátt bæri mönnum skylda til að líta til þeirra aðstæðna sem þarna hafa skapast þegar menn standa frammi fyrir breytingum af þessu tagi. Auðvitað eru þetta ekki einu dæmin sem við horfum upp á um slíkar stórfelldar breytingar. Ýmis byggðarlög í landinu þurfa af mismunandi ástæðum að mæta samsvarandi breytingum um þessar mundir. Ég lít svo á að ábyrgð stjórnvalda sé hin sama í þeim efnum hver sem orsökin er í sjálfu sér.

Um þessi mál hafa Íslendingar fyrst og fremst talað en lítið gert þegar byggðarlög þurfa að takast á við breytingar af þessum toga. Því er öðruvísi farið í nágrannalöndunum. Þar hafa menn, sumpart vegna breyttra atvinnuhátta eða af öðrum ástæðum, þurft að takast á við stórfelldar breytingar. Við getum nefnt fiskveiðibæi þar sem fiskveiðar, úthafsveiðar og aðrar slíkar hafa dregist saman eða horfið. Stjórnvöld hafa víða farið í viðamiklar aðgerðir, t.d. á Bretlandseyjum, norðurströnd Þýskalands og víðar, til þess að mæta þeim. Við getum nefnt annað dæmi, býsna nærtækt í þessu tilviki, þar sem eru t.d. námabæir þar sem námuvinnslu hefur lokið en annað atvinnulíf verið byggt upp í staðinn og traustur grundvöllur haldist fyrir áframhaldandi blómlegri byggð þó að á gerbreyttum grundvelli sé.

Ég hef stundum sagt, í tengslum við umræður um Kísiliðjuna, herra forseti, að ástæða væri til, fyrir þá hv. þm. sem ekki hafa átt þess kost, að heimsækja hinn forna námabæ Røros í hálendi Noregs. Þar búa um 4.000 manns í einangraðri byggð lengst uppi í hálendinu við landamæri Noregs og Svíþjóðar, sem mætti á fáeinum áratugum, um miðbik síðustu aldar og fram undir árið 1980, algerum umskiptum í atvinnulífi þar sem koparvinnslunni lauk á þremur áratugum. Koparvinnsla hafði verið alger undirstaða alls atvinnulífs í þessu byggðarlagi um árhundraðaskeið og það svo mjög að stóra koparnámufélagið átti meira að segja kirkjuna á staðnum. Geri aðrir betur. Norðmenn ákváðu að láta þennan bæ ekki leggjast í eyði heldur fóru í stórfelldar aðgerðir til eflingar atvinnulífi og uppbyggingu á öðrum sviðum. Þar var byggð upp með miklum opinberum stuðningi stærsta húsgagnaverksmiðja Noregs og ýmiss konar iðnaður auk þess að ferðaþjónusta var stórefld. Afleiðingin er sú að þar er nú blómstrandi bær, ívið stærri en fyrir var og hið fegursta mannlíf.

Við vonum auðvitað að þetta geti þróast þannig í Mývatnssveit þar sem er afar sérstakt og gott mannlíf í mikilli náttúruperlu. Ég hef stundum sagt að Mývatnssveit sé næst því sem komist verður í að vera byggður þjóðgarður. Það er vitanlega mikilvægt að vel takist til við að samræma þar umsvif mannsins og sambúð við náttúruna. Ég bind vonir við að breytingar sem fólgnar eru í þessu frv. geti orðið liður í slíku og vona sannarlega að svo verði.