Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 17:23:47 (5254)

2001-03-06 17:23:47# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[17:23]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður var ég vegna veikinda ekki á þessum mikla fundi sem hv. 4. þm. Vestf. vitnaði til og get þess vegna ekki dæmt um þá fullyrðingu sem hv. þm. hafði eftir fyrrverandi stjórnarformanni orkubúsins.

En ég tel mig hafa komið það oft að þessu máli að mér sé það vel í minni að þessi hugmynd kom frá heimamönnum, ég held að það hafi verið fulltrúar Vesturbyggðar sem á sínum tíma settu hana fram. Og það var ekki vegna þess að þeir væru svo gírugir og þá langaði svo mikið til að losa sig við þessa eign. Þeir voru einfaldlega í þeirri stöðu að þeir sáu ekki aðrar leiðir til þess að létta á sínum mikla skuldavanda heldur en að selja Orkubú Vestfjarða og gera það að hluta af því að losa sig út úr þessum vanda.

Þess vegna ítreka ég það og það er kannski það stóra mál sem ég var að reyna að leggja áherslu á, að það er ekki þannig að ríkisvaldið hafi verið að reyna að sælast í þessa eign Vestfirðinga og reyna að yfirtaka þessa eign Vestfirðinga heldur var hér um að ræða hugmynd um það hvort hægt væri að finna sérstaka lausn á mjög alvarlegum vanda margra, en ekki allra reyndar, margra sveitarfélaga á Vestfjörðum sem væru að glíma við óviðráðanlegar skuldir, skuldir sem gerðu það að verkum að sveitarfélögin réðu ekki við það að standa undir lögboðnum verkefnum sínum, hvað þá að takast á við það að skapa viðspyrnu í byggðunum núna þegar er virkilega mikil þörf á því. Þetta er einfaldlega það sem ég held að sé staða málsins og eins og hún hefur blasað við okkur þingmönnum Vestfirðinga sem höfum fylgst með þessu og höfum unnið að þessu máli í góðri samvinnu við sveitarstjórnarmenn sem hafa, eins og ég nefndi áðan, sameiginlega komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast sé að breyta Orkubúi Vestfjarða í hlutafélag.