Hönnun

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:45:52 (5274)

2001-03-06 18:45:52# 126. lþ. 82.8 fundur 505. mál: #A hönnunarréttur# (heildarlög) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við fyrsta yfirlestur þessa frv. sýnist að ekki sé á ferðinni stórt pólitískt álitaefni heldur miklu fremur tæknilegar breytingar á þeim lögum sem fyrir eru, lögum um hönnunarvernd frá 1993.

Það hefur komið fram í yfirliti hæstv. iðnrh. að það frv. sem við erum að vinna með er í rauninni samið með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um lögvernd hönnunar. Út af fyrir sig er áhugavert að við skulum með svo stuttu árabili takast á við löggjöf af þessu tagi því niðurstaða þeirrar nefndar sem hér var greint frá að hefði samið þetta frv. var sú að eðlilegt væri að stefnt yrði að nýrri heildarlöggjöf í stað þess að betrumbæta þá sem fyrir var. Nú er það áreiðanlega smekksatriði á hverjum tíma hvernig menn fara í breytingar á lögum eða hvernig staðið er að slíku en niðurstaðan varð sem sé þessi. Virðist ástæðan aðallega hafa verið sú að unnið var að undirbúningi að nýju norrænu frv. og eftir því sem hér kemur fram virðist sem svo að löggjöfin á Norðurlöndum verði að verulegu leyti samhljóða og nefnd okkar taldi rétt að þau lög sem hér giltu samrýmdust norrænni löggjöf á þessu sviði.

Hæstv. iðnrh. taldi upp fjöldann allan af greinum þar sem um var að ræða breytingar eða nýmæli. Eigi að síður kemur jafnframt fram að efnislegar breytingar séu ekki miklar þannig að í rauninni séum við ekki að fara neinar kollsteypur hvað varðar hönnun og hönnunarvernd. Skýringin mun liggja í því að núgildandi löggjöf er í samræmi við tillögur sem voru síðan lagðar til grundvallar tillögum Evrópusambandsins um samræmda löggjöf um vernd hönnunar. Það má segja að við séum að loka ákveðnum hring. Eftir því sem fram kemur í greinargerð frv. hefur Ísland sérstöðu hvað þetta varðar og þess vegna eru efnisbreytingar hjá okkur þegar löggjöfin er aðlöguð þeirri samþykkt sem verið er að aðlaga hana ekki jafnmiklar og annars staðar á Norðurlöndum.

Herra forseti. Hjá hæstv. iðnrh. kom fram að hún óskaði eftir því að þetta mál yrði lögfest á vorþinginu. Miðað við að ekki er um miklar efnisbreytingar að ræða ætti slíkt að vera unnt. Helstu breytingar sem tilteknar eru hér eru þær að ekki er gert ráð fyrir óskráðri hönnunarvernd en aftur á móti vísað í höfundalög hvar nytjalist nýtur höfundarréttar og hins vegar er nýmæli að unnt verður að sækja um alþjóðlega skráningu hönnunar hér á landi. Það er mikilvægt, herra forseti, og í rauninni er mikilvægt að við lyftum hönnun til þess vegsauka sem vert er. Finnar, sem hafa að flestra mati náð frábærum árangri hvað varðar hönnun og síðan í framhaldi af því í iðnaði og framleiðslu ýmiss konar iðnvarnings, segja að án listarinnar verði engin sköpun og án hönnunar verði enginn iðnaður. Þetta er nokkuð sem við höfum kannski ekki náð að tileinka okkur og ekki kannski horft til hönnunar sem jafnmikilvægs þáttar í atvinnulífi okkar eða grundvelli að atvinnulífi okkar á ýmsum sviðum eins og frændur okkar, Finnar, en vonandi stendur það allt til bóta og að við lærum að meta og skynja mikilvægi þess að sköpun og hönnun eru grundvöllur margra þátta í atvinnulífi okkar þar sem við þurfum að ná betri árangri.

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að það sem ekki er upplýst eða svarað í þessu máli nákvæmlega núna muni koma fram í vinnu hv. iðnn. Eins og ég sagði áðan þá er um ýmsa áhugaverða þætti að ræða og vonandi getur það orðið sem hæstv. iðnrh. óskar eftir, að unnt verði að afgreiða þetta mál nú á vorþingi.