Fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:53:53 (5312)

2001-03-07 14:53:53# 126. lþ. 84.5 fundur 474. mál: #A fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. 15. þm. Reykv. beinir til mín spurningu um fjárstuðning við fjölskyldur langveikra barna. Í þessum málaflokki hefur mikið áunnist eins og kom fram hjá hv. þm. áðan. Minni ég á stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna en þar var stigið stórt skref fram á við.

Ég vil minna á ný lög um fæðingarorlof, greiðslur til foreldra vegna dvalarkostnaðar við sjúkrahússinnlögn barns yngri en 18 ára fjarri heimili, breytingar á reglum um umönnunargreiðslur og svo má nefna byggingu barnaspítala þar sem aðstaða fyrir foreldra barna verður stórlega bætt. Nýlega opnuðum við nýja barnadeild á Akureyri þar sem aðstæður bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur er með því besta sem maður sér í Evrópu.

Með nýjum lögum um fæðingarorlof, sem tóku gildi 1. janúar sl., eru réttindi foreldra og greiðslur til þeirra auknar. Foreldrar í fæðingarorlofi fá nú að meðaltali 80% heildarlauna í allt að 9 mánuði. Fyrir barn sem þarf að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til greiðslna í allt að fjóra mánuði. Einnig er heimilt að framlengja greiðslur í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldra. Þessi breyting hefur nýlega tekið gildi og er mikil bót fyrir alla hlutaðeigendur.

Ég hef beitt mér fyrir breytingu á lögum um almannatryggingar til að Tryggingastofnun greiði óhjákvæmilegan dvalarkostnað annars foreldris í sjúkrahússinnlögn barns sem er 18 ára fjarri heimili. Ef um er að ræða erfiða meðferð við lífshættulegum sjúkdómi er heimilt að slík greiðsla nái til beggja foreldra barns undir 18 ára aldri.

Mikil bót var á breyttum reglum árið 1999 um greiðslur ferðakostnaðar en reglurnar voru rýmkaðar verulega. Nú geta báðir foreldar fengið fjárhagsaðstoð í þessu skyni. Þá beitti ég mér fyrir breytingu á lögum um félagslega aðstoð þar sem umönnunargreiðslur hækkuðu. Í framhaldi af því var annað flokkunarkerfi umönnunargreiðslna tekið upp og reglur settar um að skólavistun hafi ekki lengur áhrif á umönnunargreiðslur Tryggingastofnunar.

Lengi hefur verið rætt um að endurskoða þurfi rétt foreldra til að vera heima með veikum börnum sínum. Bent hefur verið á að ekki er gerður greinarmunur hér á landi á slíkum rétti til handa þeim sem eiga langveik börn og annarra. Er brýnt að taka upp viðræður um þetta milli ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins að mínum dómi. Ég sé fyrir að við færum í þessum efnum svipaða leið og farin var þegar við breyttum fæðingarorlofsréttindum sem við settum í forgang en næsta skref gæti að mínu vitið orðið að rýmka mjög rétt foreldra vegna veikra barna.

Virðulegi forseti. Stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna hefur þegar verið hrundið í framkvæmd að hluta. Málefnið hefur verið þeirri sem hér stendur hugleikið og hefur af hálfu heilbr.- og trmrn. verið lögð áhersla á að bæta hag barnanna og aðstandenda þeirra. Á liðnum árum hafa hundruð milljóna króna runnið til hvers kyns aðgerða og uppbyggingar um land allt til að bæta þjónustuna við langveik börn og aðstandendur þeirra. Engin ríkisstjórn hefur varið jafnmiklu fé á jafnskömmum tíma til málaflokksins eins og sú ríkisstjórn sem nú situr.