Fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:05:22 (5318)

2001-03-07 15:05:22# 126. lþ. 84.5 fundur 474. mál: #A fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við megum ekki gleyma því að við erum komin fram úr Norðurlandaþjóðunum varðandi ýmis málefni langveikra barna. Og við erum líka komin dálítið langt fram úr þeim varðandi feðraorlof til að mynda og fæðingarorlofsfrv. sem hér var samþykkt ekki alls fyrir löngu er nokkuð sem engin önnur þjóð hér í kringum okkur getur stært sig af þannig að við megum ekki alltaf tala eins og við séum síðust af öllum síðustu, því við erum nefnilega fremst af öllum fremstu á mörgum sviðum.

Hér hefur verið talað um að það sé nauðsynlegt að atvinnulífið og ríkið taki höndum saman varðandi lengra orlof fyrir foreldra langveikra barna, svipað og við tókum höndum saman um fæðingarorlofið og feðraorlofið. Það er alltaf spurning hvað við getum farið hratt í sakirnar eins og hér hefur komið fram. Við höfum farið mjög hratt í þessi mál og munum halda áfram að vinna að þeim af fullri festu og alvöru. Og þess er ekki langt að bíða, ef við höldum áfram eins og fram horfir, að við verðum fremst á þessu sviði líka. Við Íslendingar erum bara yfirleitt ekkert ánægð með neitt annað en að vera fremst í flokki. Til þess þurfum við að sjálfsögðu að leggja mikið í sölurnar en við þurfum að vinna saman, ríkið og atvinnureksturinn hvað þetta varðar. Það hefur einmitt komið mjög vel fram í fjölmiðlum undanfarið að það er ekkert mjög einfalt, t.d. fyrir smærri atvinnurekstur að taka þetta á sig alfarið, og þess vegna verður þetta að vera samstarfsverkefni ríkis og atvinnulífs.