Flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:41:59 (5334)

2001-03-07 15:41:59# 126. lþ. 84.7 fundur 463. mál: #A flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Flutningur opinberra starfa út á land er ræddur af og til hér á Alþingi og óhætt að segja að hér sé víðtækur stuðningur við það að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. En það er hins vegar auðveldara um að tala en í að komast og við höfum séð það að jafnan þegar eitthvað er gert í þá veru eru viðbrögðin hörð. Við minnumst viðbragða við flutningi Landmælinga til Akraness þar sem starfsmenn, verkalýðsleiðtogar og fjölmiðlar veittust mjög hart að stjórnvöldum fyrir þann flutning. Þar hefur sem betur fer tekist afskaplega vel til og stofnunin verið á mikilli uppleið síðan hún var flutt. Sama er uppi á teningnum við flutning Byggðastofnunar til Sauðárkróks í tveimur áföngum og sýnist það þó eðlilegur flutningur, þar sem er beinlínis kveðið á um það í lögum að starfssvæði Byggðastofnunar sé allt landið nema höfuðborgarsvæðið og eðlilegt að höfuðstöðvarnar séu á starfssvæði stofnunarinnar.

Ég held að hæstv. samgrh. hafi staðið afskaplega skynsamlega að málum þegar hann lagði það fyrir forstöðumenn allra þeirra stofnana sem heyra undir ráðuneyti hans að gera tillögur um hvað af störfunum í þeim stofnunum væri hægt að flytja út á land. Niðurstaðan var kynnt í síðustu viku. Þar er um verulegan fjölda starfa að ræða og ég held að þessi aðferð sé líklegust til árangurs og líklegust til að skapa frið um flutning starfa út á land.