Flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:51:49 (5342)

2001-03-07 15:51:49# 126. lþ. 84.7 fundur 463. mál: #A flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég fagna því þegar svona kröftugar umræður verða um byggðamál út af einni lítilli fyrirspurn. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar og þeim hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni.

Þegar ég fer í gegnum þessa skýrslu, þá sé ég að það megi hæglega flytja 70--80 störf. Og þá er ég ekkert endilega að tala um að rífa upp stofnanir með húð og hári, heldur að taka hluta af þeim og færa til og nýta upplýsingabyltinguna eins og svo fallega hefur verið talað um, en lítið verið gert með frá hendi hæstv. ríkisstjórnar.

Það er náttúrlega dálítið kyndugt að lesa það þegar starfsmenn Einkaleyfastofunnar benda á að flytja megi út það starf frá stofnuninni sem er skráning byggðamerkja, sem í skýrslunni kemur fram að er aðeins hluti úr einu stöðugildi. Þetta voru tillögur starfsmannanna. Það er nú sennilega þannig, herra forseti, að embættismennirnir á höfuðborgarsvæðinu halda mest í þessi störf og koma í veg fyrir að ýmislegt af þessu sé gert.

Varðandi aðra spurningu mína þá fjallaði hæstv. ráðherra um árangursstjórnun þessara stofna og allt það, hún sagði markmið hafa verið sett vegna næstu þriggja ára. Herra forseti. Ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með að það eigi að taka þrjú ár. Mér sýnist hæstv. ráðherra vera að setja þetta mál beint á núll-punkt aftur, á byrjunarreit. Þetta olli mér vonbrigðum. Ég held að hægt sé að gera þetta á annan hátt og tek það skýrt fram að það má gera líka með því að taka hluta og færa störf þannig til.

Ég bendi á að Kaupþing var ekki flutt í heilu lagi til Siglufjarðar, en störf voru flutt á vegum Kaupþings sem skapa átta störf og er sennilega farsælasta og besta fjarvinnsluverkefni sem gert hefur verið á Íslandi hin seinni ár.

Herra forseti. Því miður er það svo að það eru aðallega einkafyrirtæki sem gera þetta. Nú er Seðlabankinn með eitt eða tvö störf á Raufarhöfn við að svara í síma. Ríkisstofnanir sitja því miður allar eftir og eru ekki að gera neitt. Og þar ber hæstv. ríkisstjórn ábyrgð á vegna þess að hún lætur forstjóra og aðra komast upp með að segja sér fyrir verkum og gera ekki neitt.