Tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 16:39:13 (5364)

2001-03-07 16:39:13# 126. lþ. 84.11 fundur 500. mál: #A tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fyrirspurnir hv. þm. gefa ekkert tilefni fyrir mig til þess að túlka 53. gr. grunnskólalaga. En ef hv. þm. hefði lagt fyrir mig fyrirspurnir sem byggðust á því að ég túlkaði fyrir hana 53. gr. grunnskólalaganna, þá hefði ég að sjálfsögðu gert það. Ég hvet hv. þingmenn til að lesa þessar furðulegu fyrirspurnir miðað við ræðu hv. þingmanns til þess að átta sig á því að hér er farið um víðan völl og raunar mjög forvitnilegt að fylgjast með þeim þremur ólíku sjónarmiðum sem koma fram í málinu í þessum þremur ræðum hv. þm. vinstri grænna, því að þeir eru alls ekki sammála. Hv. þm. Jón Bjarnason virtist telja að það væri lykilatriði til þess að þetta væri nú allt í góðu gengi að Kennaraháskóli Íslands væri fenginn til að fylgjast með því hvernig þetta gengi fram. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir segir að það séu fjárhagsleg sjónarmið sem ráða, þetta sé bara peningamál og einkaframkvæmd frá peningalegu sjónarmiði. Og hv. þm. Ögmundur Jónasson leggur áherslu á einhver önnur atriði sem ég man nú ekki einu sinni hver voru, því ræðutímanum var lokið, þannig að ég lagði ekki við hlustirnar eftir að forseti fór að berja í bjölluna. (ÖJ: Þetta er afskaplega málefnalegt.) Hv. þm. koma að þessu máli úr þremur ólíkum áttum.

En ég held að kjarni málsins sé sá sem kom fram í ræðum hv. þm. Katrínar Fjeldsted og Drífu Hjartardóttur að við erum hér að treysta fólkinu sjálfu fyrir að koma að því að reka skólana og að ganga þannig til verks að menn fái að njóta sín sem best, án tillits til þess hvort þeir séu einkaaðilar eða sveitarfélagsaðilar. Aðalatriðið er væntanlega það og markmið okkar allra að tryggja gott skólastarf. Ég tel að Hafnarfjarðarbær hafi staðið þannig að öllum undirbúningi að ekki þurfi að efast um að það sé markmiðið með þessu öllu saman, enda hefði ráðuneytið ekki fallist á tillögur bæjarins nema vegna þess að við erum þeirrar skoðunar.