Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:09:19 (5379)

2001-03-08 11:09:19# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:09]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998. Flm. auk mín eru hv. þm. Samfylkingarinnar.

Þetta mál er búið að vera á dagskrá hér í þinginu frá því í haust en gengið hefur erfiðlega að fá það á dagskrá eða öllu heldur að fá þá aðila sem málið varðar til umræðu um það. Þá á ég einkanlega við hæstv. félmrh. Mér er hins vegar sagt að hann sé á leið til þessa fundar því að efni máls er þannig vaxið að þessi mál hafa verið til umfjöllunar í félmrn. á vettvangi sambands sveitarfélaga og raunar á vettvangi fjölmargra sveitarfélaga í landinu.

Frv. lýtur að því að gera bókhald og ársreikninga sveitarfélaga og skuldbindingar þeirra þannig úr garði að gagnsæ séu og öllum ljós og skýr. Á það vantar nokkuð og einkum í seinni tíð þegar ný leið fjármögnunar hefur rutt sér til rúms í stórauknum mæli, ekki í mörgum sveitarfélögum í landinu en nokkrum þó og langtum meira í sumum en öðrum.

Almennt vil ég þó hins vegar segja, herra forseti, til að halda því ákveðið til haga að ég er þeirrar skoðunar að sveitarstjórnir eigi að ráða málum sínum til lykta að fullu og öllu í eins miklum mæli og nokkur kostur er og atbeini ríkisvaldsins og löggjafarvaldsins eigi að vera sem minnstur. En á hinn bóginn er mjög mikilvægt að regluverkið, leikreglurnar sem sveitarfélögin eiga að starfa eftir séu ákaflega skýrar og glöggar og þá er það hið háa Alþingi sem hefur það verkefni með höndum.

Frá því ég var sveitarstjórnarmaður um langt árabil var það lengi og er eitur í mínum beinum að einstök ráðuneyti eða framkvæmdarvaldið sé að setja fingurna í smá og stór mál í rekstri sveitarfélaga og ég hef ekki breytt um skoðun í þeim efnum. En hitt verður að vera alveg skýrt hvaða leikreglur eru til staðar, hvaða lagarammi er búinn sveitarfélögum í smáu og stóru, og í þessu frv. er verið að taka á, að minni hyggju, mjög mikilvægum þætti í því sambandi.

Ég er raunar að fjalla um það nýmæli sem menn hafa kallað einkafjármögnun eða rekstrarleigu og felst í því að sveitarfélög ráðast ekki lengur fyrir eigin atbeina í byggingu og rekstur mannvirkja fyrir lögbundna þjónustu þeirra heldur eru það einkaaðilar sem hafa ráðist í slíka fjárfestingu í skólum, í leikskólum og raunar fleiri mannvirkjum, og sveitarfélagið tekur þetta mannvirki á leigu gjarnan í 25 ár. Það má margt um þetta fyrirkomulag segja og ég hef verið í hópi þeirra sem hafa dregið mjög í efa ágæti þess, a.m.k. hef ég varað við því að menn geri þetta að hinni almennu reglu sem virðist ætla að verða ofan á í einstaka sveitarfélagi, til að mynda í heimabæ mínum, Hafnarfirði, þar sem tæpast er byggt svo nýtt hús af hálfu sveitarfélagsins að þessi einkafjármögnunar- og rekstrarleiguleið sé ekki farin.

Ég held ég muni það rétt að í fyrsta skipti sem þetta var gert var það einmitt í Hafnarfirði líka þar sem reistur var nýr iðnskóli í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, og mönnum þótti og var tiltölulega almenn sátt um að það væri í lagi að reyna slíka aðferð og bera hana saman við þá hefðbundnu aðferð sem menn þekkja þar sem rekstraraðilinn sjálfur, sá sem ber ábyrgð á rekstrinum, sé einnig eigandi viðkomandi húsnæðis og beri ábyrgð á því á sama hátt. Að þetta þróist út í það að verða hin almenna regla, um það hef ég verulegar efasemdir og raunar alvarlegar athugasemdir.

[11:15]

Menn þekkja þetta dálítið erlendis frá, m.a. frá Danmörku og Bretlandi, að reynsla manna er mjög mismunandi í þeim efnum. Í fyrsta lagi staldra menn við og segja: Hvað ef forsendur leigjandans breytast mjög verulega á löngum samningstíma, 25 árum, þarfir breytast í grundvallaratriðum hugsanlega? Það má nefna skóla sem dæmi. Það verður breyting á lagaramma og umhverfi skólanna og húsnæðið þarf auðvitað að taka mið af því. Hver er þá samningsstaða leigjandans, í þessu tilfelli bæjarfélagsins, gagnvart þeim einkaaðila sem húsnæðið á? Hún er afskaplega erfið og eigandi húsnæðisins hefur það algerlega í hendi sér hvernig breytingar og endurbætur á húsnæðinu eru verðlagðar. Þetta þekkja menn frá gömlum og nýjum tíma þegar opinberir aðilar eru að eiga við verktaka við uppbyggingu nýrra húsa þegar aukaverkin svokölluðu eru orðin alls ráðandi. Maður skyldi ekki nefna snöru í hengds manns húsi en í þessu sambandi er óhjákvæmilegt eða mjög nærtækt að nefna dæmi frá hinu háa Alþingi sem er Austurstrætishúsið þar sem hlutir hafa farið úr böndum. Þetta er því miður ekki nýtt af nálinni hér á landi og raunar víðar en umfram allt er það þannig að ef ekki er búið þannig um hnútana strax í upphafi og þarfir nákvæmlega skilgreindar af hálfu verkkaupa, þá eru verksala allar leiðir opnar til þess að gera út á aukaverkin, gera út á aukareikninga til handa verkkaupanum. Það er meginástæðan fyrir því að þessi verk fara yfirleitt úr böndum hjá opinberum aðilum, því miður.

Mig langaði jafnframt þegar hæstv. ráðherra kemur hér til leiks að inna hann eftir því hvert álit hans er almennt á þessari aðferðafræði hér og nú þó að frv. í sjálfu sér snúi ekki að því atriði, hvort honum þyki það rétt þróun og eðlileg að sveitarfélög ,,fjármagni`` í auknum mæli nýframkvæmdir með þeim hætti að verða leigutakar hjá einkaaðilum úti í bæ.

Herra forseti. Ég fer senn að koma að þeim atriðum ræðu minnar sem ég held að sé óhjákvæmilegt að ráðherrann leggi við hlustir því að það eru nokkrar spurningar sem ég ætlaði að varpa til hans og kalla eftir viðhorfum hans í því máli. Sést nokkuð í hann?

(Forseti (ÍGP): Forseti getur upplýst það að ráðherra hefur verið látinn vita og síðast þegar ég vissi var hann lagður af stað úr ráðuneytinu hingað til þings.)

En hann er ekki kominn í hús?

(Forseti (ÍGP): Hann er ekki kominn í hús, nei.)

Þá er úr vöndu að ráða, herra forseti. Ég veit ekki hve mikið gagn ég geri hinu háa Alþingi með því að halda ræðu mína tvisvar, þ.e. fyrst fyrir þá hv. þm. sem hér leggja við hlustir og síðan endurtaka hana aftur þegar ráðherra kemur í hús. Ég mundi gera það að tillögu minni að gert yrði nokkurra mínútna hlé á fundinum þangað til ráðherrann væri kominn í hús. Ég held að tímanum væri betur varið með þeim hætti.

(Forseti (ÍGP): Forseti verður við þessari ósk hv. þm. og við gerum 5 mínútna hlé á þingfundi.)