Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:41:41 (5382)

2001-03-08 11:41:41# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:41]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ljúfar undirtektir. Af orðum hans er ljóst að hann telur ekki rétt að sveitarfélög feli skuldbindingar af þessum toga, eins og raunin hefur því miður orðið. Ég gat raunar um það í framsögu minni að hér er ekki um að ræða innansveitarkróníku í Hafnarfirði, svo að ég noti orð hæstv. ráðherra, heldur fyrirkomulag sem hefur færst í vöxt, m.a. í borginni, Reykjanesbæ, Grindavík og víðar, svo að ég nefni nú nokkur dæmi.

Mér fannst hæstv. ráðherra hins vegar skauta fremur létt yfir þetta vandamál. Hann byrjaði á að lesa gildandi sveitarstjórnarlög, 67. gr. og sagði málið afskaplega skýrt. Skýringin er samkvæmt orðanna hljóðan ákaflega skýr en túlkun hennar hefur hins vegar verið mikið á reiki eins og dæmin sanna. Reynslan sýnir að skuldbindingar upp á milljarða kr. hafa ekki verið sýnilegar. Ráðuneyti hæstv. ráðherra hefur skrifað upp á slíkar ásetningar og staðfest þær þó eitthvað sé málum blandið. Hæstv. ráðherra svaraði sér raunar sjálfur og sagði að vandinn væri skýr og að verið væri að setja nefnd á laggirnar til þess að leysa úr þessu álitaefni.

Herra forseti. Hin nýja reikningsskila- og upplýsinganefnd sem svo er kölluð er auðvitað ekki sú fyrsta sinnar tegundar. Bókhaldsnefnd sveitarfélaga hefur reynt að komast að niðurstöðu um þessi álitamál og gerði það fyrir 6--8 mánuðum. Niðurstaðan var hins vegar svo óljós og óskýr að engum hefur tekist að vinna eftir henni. Af þeim ástæðum tel ég óhjákvæmilegt að hið háa Alþingi taki af öll tvímæli. Grundvallaratriðið er að þessar skuldbindingar eins og aðrar séu sýnilegar í efnahagsreikningi sveitarfélaga. Það hafa þær ekki verið. Ég vil jafna þessu að fullu og öllu við lántöku, þarna er um skuldbindingu að ræða sem sveitarfélög og skattgreiðendur þurfa að standa skil á.