Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 15:48:24 (5445)

2001-03-08 15:48:24# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um afkomutryggingu, þar sem lagt er til að kjör lífeyrisþega, aldraðra og öryrkja verði bætt og komið á afkomutryggingu fyrir þá svo þeir þurfi ekki að búa við fátækt eða óvissu um kjör sín. Við teljum að þar eigi sérstaklega að taka á stöðu ungra öryrkja. Það er í raun áfellisdómur yfir velferðarkerfi okkar að svona tillaga þurfi að koma fram. Við höfum vissulega byggt upp velferðarkerfi okkar og eigum okkar almannatryggingar en því miður er svo illa komið fyrir kerfinu að það þarf að taka sérstaklega á því. Við leggjum til að það verði gert á þann hátt sem lýst er í þessu þingmáli.

Þjóðfélag sem ekki býr vel að öldruðum, öryrkjum og þeim sem eiga undir högg að sækja getur ekki talist velferðarþjóðfélag. Það stendur ekki undir nafni. Ef við horfum bara til nágrannalanda okkar og sjáum hvernig búið er að þessum hópum þar, þá getum við nefnt að á Norðurlöndunum eru grunnréttindi aldraðra og öryrkja t.d. ekki undir 100.000 kr. íslenskum. Ég er að tala um grunnréttindin og þá eiga eftir að koma fleiri viðbótargreiðslur og bótaflokkar. Á sama tíma eru grundvallarréttindin hér á landi um 50.000 kr., þ.e. grunnlífeyrir og tekjutrygging eru rúmar 50.000 kr. Lífeyrisþegar sem býr ekki einn en er ekki í hjónabandi getur haft rúmar 50.000 kr. en ef hann er í hjónabandi þá hefur ríkisstjórninni sem nú situr ákveðið að hann skuli hafa 43.000 kr., sú upphæð hæfi þeim.

Á sama tíma og lágmarkslaun í landinu eru í kringum 90.000 kr. eru lífeyrisþegum og öldruðum skammtaðar 43.000 kr., 51.000 eða í mesta lagi 63.000, búi þeir aleinir og hafi almannatryggingabæturnar. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið veist að kjörum þessa hóps þó að hér hafi ríkt góðæri. Þess vegna þarf m.a. að taka á þessum málum eins og hér er lagt til.

Útgjöld lífeyrisþega hafa aftur á móti hækkað mjög, t.d. hafa lyf hjá gömlu fólki hækkað um fleiri hundruð prósent í sumum tilvikum. Ég er hér með samanburðartölur frá eldri borgurum en þeir segja að á sama tíma og lífeyrir og tekjutrygging hækkaði um 23% þá hækkuðu lyfin um 120%. Með því hækka útgjöld þeirra mikið. Það er ekki að ástæðulausu sem aldraðir og öryrkjar hafa staðið fyrir utan þinghúsið þegar við höfum komið hér saman að hausti til að minna á kjör sín. Fólk er ekki að gera það gamni sínu. Fólk gerir það auðvitað vegna þess að það kreppir verulega að þessum hópi. Það hefur verið staðið illa að því að gæta að kjörum þessa fólks.

Einnig hefur verið veist að öryrkjum og öldruðum þegar kemur að hjónaböndum. Við höfum margoft talað um það hvernig skerðingarreglan vegna tekna maka hefur bitnað á hjónaböndum og fjölskyldulífi þessara hópa. Þó svo að dómur hafi verið kveðinn upp í Hæstarétti þá hefur ríkisstjórnin ekki látið segjast, spyrnt við fótum og haldið áfram að skerða. Ég hef heyrt það frá mörgum lífeyrisþeganum að breytingin sem gerð var breyti litlu um það og sé engin hvatning til þess að menn stofni til fjölskyldu. Síður en svo.

Sú regla sem sett var í lögin er þar fyrir utan aðför að konum. Það er full ástæða til að nefna það hér á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, og minna á að með þessari reglu er veist að konum, því 98% þeirra öryrkja sem verða fyrir þessari skerðingarreglu eru konur. Þeir verða fyrir mjög brattri skerðingu, 67% skerðingu vegna eigin tekna, fyrir utan skattinn. Þarna eru því verulegir jaðarskattar lagðir á konur með þeirri lagasetningu sem ríkisstjórnin kom á í kjölfar öryrkjadómsins og stendur til að koma á gagnvart öldruðum. Ég leyfi mér að efast um það, herra forseti, að sú regla standist. En við eigum eftir að fara í þá umræðu. Það er vafamál hvort svo hastarleg skerðingarregla standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, jafnréttislög og samninga.

Ég vil líka taka undir það að við eigum ekki að láta það viðgangast að stór hópur lífeyrisþega þurfi að leita á náðir líknarfélaga og hjálparstofnana á ári hverju. Yfir 83% skjólstæðinga Hjálparstofnunar kirkjunnar á síðasta ári voru öryrkjar og atvinnulausir. Árlega þurfa 1.100--1.300 lífeyrisþegar að leita á náðir Hjálparstofnunar kirkjunnar til að fá þar stuðning. Það ber ekki gott vitni ríkisstjórn sem stjórnar í miklu góðæri.

Öryrkjabandalagið hefur margoft lýst því hvað stefnan sem ríkisstjórnin hefur haldið uppi gagnvart lífeyrisþegum hefur haft í för með sér gagnvart þeim. Bent hefur verið á að þetta sé aðskilnaðarstefna sem grundvallast á fötlun. Það eru oft börn öryrkjanna sem líða mest, þau líða fyrir þessi kjör. Það má geta þess að börn á framfæri skjólstæðinga Hjálparstofnunar kirkjunnar, þeirra sem leituðu þangað á síðasta ári, voru 1.600 talsins.

Herra forseti. Það mætti tína til ýmislegt fleira í stöðu þessa hóps sem sýnir hversu rík þörf er á að þetta þingmáli nái fram að ganga og farið verði í að tryggja afkomu lífeyrisþega, afkomu aldraðra og öryrkja og síðan auðvitað að skoða kjör ýmissa annarra hópa sem eru frá vinnu, eru tekjulausir vegna veikinda, veikinda sinna nánustu eða vegna veikinda barna sinna. Það eru mjög margir hópar sem við þurfum að skoða í kjölfarið á þessu þingmáli.