Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:50:20 (5463)

2001-03-08 16:50:20# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:50]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Mér sýnist að það sé að koma að lokum þessarar umræðu sem hefur staðið nokkra hríð um till. til þál. um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja sem við flytjum.

Ég vil byrja á því að þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls og lýst yfir stuðningi við tillöguna. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að hafa verið viðstödd umræðuna og hafa tekið þátt í henni með okkur á þessum degi. Það er of sjaldan að mínu viti að ráðherrar gefi sér tíma til þess að fjalla um þingmannamál sem hér eru til umræðu, þannig að ég fagna því sérstaklega að ráðherrann hafi verið viðstödd. Það hefur ýmislegt komið fram sem væri ástæða til þess að líta á nokkuð nánar.

Hæstv. ráðherra fór ofan í þær tölur sem Samtök aldraðra hafa verið að setja fram um þá gliðnun sem hefur orðið á milli verkamannalauna og lífeyrisgreiðslna. Ég hygg að það sé alveg hárrétt hjá ráðherranum að inni í þessu séu ekki heimilisuppbætur eða sérstakar heimilisuppbætur. En allt að einu er sama viðmið að því er varðar 1991, þ.e. grunnlífeyri og tekjutryggingu þegar verið er að nota það sem er svona almennt yfir þann breiða hóp lífeyrisþega, öryrkja og aldraða. Og þá koma upp þessar tölur að það vanti 3--4 milljarða inn í lífeyrisgreiðslurnar til þess að um sé að ræða sama hlutfall af launum. Enda er það nú ekki tiltölulega stór hópur sem er á sérstakri heimilisuppbót, ég held að það séu mjög fáir einstaklingar, þannig að það er mjög villandi að draga þann hóp fram sem viðmið þegar við metum kjör aldraðra og öryrkja. Þessu vildi ég halda til haga.

Ráðherrann kom aðeins inn á erindisbréfið sem nefndin vinnur eftir. Ég veit ekki betur en nefndin hafi verið ansi lengi að störfum og hún hafi ekkert endilega verið sett á laggirnar í tengslum við öryrkjadóminn, þannig að hún er búin að vera að vinna frá því í september ef ég man rétt. Og ég treysti því --- ráðherrann kom að vísu ekki inn á það --- að málið kom það tímanlega fyrir þingið að við getum tekið á því ef um er að ræða lagabreytingar sem ráðherrann fór ekki inn á sem fylgir þá þessari niðurstöðu frá nefndinni. Alla vega veit ráðherrann það að því verður auðvitað fylgt fast eftir að niðurstaða fáist í þetta mál, þ.e. auknar bætur til lífeyrisþega fyrir þá tímasetningu sem ráðherrann hefur sjálf gefið út, þ.e. 15. apríl.

Einn hv. þm. sem hér talaði, hv. þm. Pétur Blöndal, fór aðeins yfir það að þetta kostaði nú sitt og ekki eru það neinar nýjar fréttir fyrir neinn hér inni eða þá sem á þetta hlýða. Auðvitað kostar það að öryrkjar og aldraðir fái sinn eðlilega skerf af því sem til skiptanna er í þjóðfélaginu. Þetta er allt spurning um forgang í þjóðfélaginu. Það er alveg ljóst að ef öryrkjar hefðu fengið sinn hlut af góðærinu, þá hefði t.d. tekjuafgangur ríkissjóðs ekki verið 26 eða 28 milljarðar eða hvað hann var á síðasta ári. Hluti af því að tekjuafgangur ríkissjóðs er góður er m.a. það að lífeyrisþegar hafa ekki fengið það sem þeim bar af góðærinu.

Hv. þm. Pétur Blöndal segir að skattar landsmanna verði jú að standa undir þessu. En ég segi líka: Þetta er spurning um forgang. Það er einu sinni svo að ríkisstjórnin hefur sett annað í forgang á þessu kjörtímabili heldur en að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Við munum þegar hún létti tollunum af lúxusjeppunum sem kostaði 500 millj. kr. Það er skemmst að draga það fram þegar hún taldi það eitt af sínum brýnustu verkefnum fyrir jólin að lækka skatta af fjármagnseigendum, þ.e. þeirra sem eiga hlutabréf, að þegar þeir væru komnir yfir tiltekið hámark í hlutabréfaeign, þá vildi ríkisstjórnin lækka skatta af þeim úr 38% í 10%. Í því eru náttúrlega töluverðir peningar.

Ríkisstjórnin hefur líka verið að eyða töluverðum peningum, bæði innan ráðuneytisins og ríkisstofnana í það sem kallað er ,,sérfræðiaðstoð`` sem hefur verið að blása mjög út á umliðnum árum, hefur hækkað á tiltölulega fáum árum úr einum milljarði í 3,5 milljarða, þannig að þetta er ekki endilega spurning um skattahækkanir, þó að farið sé út í að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja, heldur er þetta fyrst og fremst spurning um forgang og eðlilega skiptingu á því sem til skiptanna er í þjóðfélaginu.

Það vita það auðvitað allir að ekki er hægt að framfleyta sér í íslensku þjóðfélagi af þeim lífeyrisgreiðslum sem öryrkjar og aldraðir eru látnir búa við. Og það vita allir sem það vilja vita að það er þjóðarskömm að því að íslenskt þjóðfélag, sem vill nú kenna sig við velferðarþjóðfélag, sé að bjóða öryrkjum og öldruðum upp á slíkan smánarlífeyri. Þess vegna er auðvitað grannt reynt að fylgjast með því að a.m.k. aldraðir og öryrkjar fái það sem þeim ber, t.d. samkvæmt launavísitölu eins og ég var að nefna áðan, en það sé ekki eilíflega verið að miða við það sem lægst gefur lífeyrisþegunum. Og það er það sem við höfum verið að fara yfir á þessum degi.

Ég hygg að hæstv. heilbrrh. sé í hjarta sínu okkur alveg sammála um að ekki hafi verið nægilega vel staðið að því að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega á þessu kjörtímabili og raunar allt aftur til ársins 1995. En eins og ég sagði þegar ég flutti framsöguræðu mína, þá held ég að það sé miklu fremur því að kenna að hæstv. heilbrrh. sé ekki í góðum félagsskap í ríkisstjórninni fremur en að hana sjálfa skorti vilja til þess að bæta kjör lífeyrisþega. Ég hygg að hæstv. ráðherra hafi fullan hug á því.

Það hefur ekki verið farið mikið inn á það sem er sérstaklega nefnt í þessari tillögu, þ.e. að bæta sérstaklega kjör ungra öryrkja. Ég hafði vonast til þess að hæstv. ráðherra mundi ræða það mál, vegna þess að það er afar brýnt að viðurkennd sé sérstaða ungra öryrkja, þeirra sem annaðhvort eru fatlaðir alveg frá fæðingu eða barnæsku eða fatlast mjög ungir. Framfærslubyrði þessara ungu öryrkja er kannski iðulega meiri en hjá öldruðum eða öðrum hópum, þar sem þeir eru kannski að koma sér upp fjölskyldu og þaki yfir höfuðið. Framfærslubyrði þeirra er ekki síst mikil ef þeir hafa fyrir fjölskyldu að sjá.

Í því sambandi vil ég minna á ályktun Öryrkjabandalagsins frá 1998 en þar var skorað á Alþingi að hækka grunnlífeyri sérstaklega og mest hjá þeim sem verða fyrir varanlegri örorku á æskuárum. Tillaga bandalagsins var sú að verði einstaklingur fyrir varanlegri örorku 20 ára eða yngri, þá skuli grunnlífeyrir hans nema ekki lægri upphæð en 51.000 á mánuði. Það er verið að tala um verulega hækkun á grunnlífeyri. Þetta var árið 1997 eða 1998, þannig að í dag er það töluvert hærri fjárhæð en 51.000 og sú upphæð átti að fylgja þróun launavísitölu.

Síðan var ákveðin útfærsla á þessari tillögu, sem ég hef alltaf litið á að hafi verið allrar athygli verð. Mér finnst verst að hæstv. ráðherra er farin úr salnum, en ég hefði viljað spyrja hana að því hvort skoðun hennar væri ekki sú að það þyrfti að bæta og viðurkenna sérstaklega stöðu ungra öryrkja í þeirri skoðun sem nú fer fram á vegum ráðuneytis hennar og ríkisstjórnarinnar við það að bæta kjör öryrkja.

Það hefur verið farið nokkuð, herra forseti, yfir kjör öryrkja og hvernig með þau hefur verið farið á umliðnum árum. Það er ekkert ofsagt í því, herra forseti, að þær litlu hækkanir sem öryrkjar hafa fengið á umliðnum árum, sem oft skipta nokkrum hundruðum kr., það er nú ekki meira, kannski 300--800 kr. þrisvar eða fjórum sinnum á ári, það er eins og það sé jafnharðan tekið aftur í ýmiss konar hækkunum. Yfir það hefur verið farið hér. Það hefur verið töluvert mikil hækkun á lyfjakostnaði hjá öldruðum. Við þekkjum að það hefur orðið mikil hækkun á íbúða- og leiguverði og það eru margir öryrkjar sem eru á leigumarkaðnum, eru í leiguíbúðum og hafa þurft að sæta verulegri hækkun á leiguverði, sem þýðir það að kjarabætur hafa kannski ekki verið neinar. Þessir örfáu hundraðkallar sem þeir hafa fengið þegar hækkanir hafa orðið hrökkva ekki einu sinni fyrir hækkun á leiguverði.

Fyrir þá sem eiga íbúðir, t.d. aldraðir eða öryrkjar, þá hefur orðið gífurleg hækkun á fasteignagjöldum sem hafa hækkað verulega í tvígang og eru orðin mjög erfið og þung í framfærslu fyrir mörg heimili, ekki síst, herra forseti, fyrir aldraða, vegna þess að það vill svo til að þó að aldraðir margir hverjir, sem betur fer, búi við sæmilega húsnæðisaðstöðu og eigi sitt eigið húsnæði, þá eru tekjurnar sem þeir hafa sér til framfærslu oft á tíðum mjög litlar. Og það munar um það fyrir aldraða þegar fasteignagjöldin t.d. hækka verulega. Á fundum þar sem ég hef verið með þessum hópum eins og öldruðum og öryrkjum reyndar líka hefur verið mjög kvartað yfir þessari hækkun á fasteignagjöldum.

Það hefur ekki verið farið inn á eitt atriði sem ástæða er til að nefna og það er eitt af hinum stóru baráttumálum öryrkja og aldraðra, ekki síst aldraðra, það er að tekjur sem þeir fá úr lífeyrissjóðum séu skattlagðar með venjulegu skatthlutfalli, en ekki með sama skatthlutfalli og fjármagnstekjur. Því að auðvitað er það sannleikur málsins að þrír fjórðu hlutar af þeim lífeyri sem fólk fær úr lífeyrissjóðum er ekkert annað en fjármagnstekjur og það vekur furðu að það skuli ekki hafa verið skoðað af fullri alvöru hjá ríkisstjórninni að fara í skattalegu tilliti með lífeyrisgreiðslurnar eins og fjármagnstekjur. Það vafðist ekkert fyrir ríkisstjórninni fyrir jólin að lækka skattinn af hlutabréfunum úr 38% í 10%.

Ekki síst þegar til þess er horft, herra forseti, að þannig hefur verið farið með skattleysismörkin á umliðnum árum þó að breyting hafi orðið á í síðustu kjarasamningum, að skattleysismörkin hafa verið fryst, með þeim afleiðingum að stór hluti, herra forseti, lágtekjufólks er allt í einu farinn að greiða skatt, kannski þetta á bilinu 4.000--8.000 kr. á mánuði, sem eru mjög miklir peningar fyrir fólk sem er kannski með einhvers staðar á bilinu 50.000--80.000 kr. í tekjur. Það eru mjög miklir peningar fyrir þennan hóp. Og það hefur fjölgað verulega í hópi skattgreiðenda af þessum sökum.

Þess vegna er mjög mikilvægt að kjör lífeyrisþega séu skoðuð heildstætt, útgjaldatilefnin og útgjaldaaukningin sem hefur orðið hjá þessum hópi, sem er langt umfram það sem hækkunin hefur verið á lífeyrisgreiðslum til þessara hópa.

Hér hefur verið farið inn á bílastyrkina. Það hefur verið farið inn á lyfjakostnaðinn, hækkunina þar. Það hefur verið farið inn á hækkunina á fasteignagjöldum. Eignarskatta má nefna. Fjármagnstekjuskattinn. Hækkun á íbúða- og leiguverði, svo dæmi sé tekið. En að sama skapi hefur þessi hópur verið skilinn eftir að því er varðar hækkun í samræmi við það sem gerst hefur í þjóðfélaginu. Það er einmitt þetta sem við viljum leiðrétta með þeirri tillögu sem við í Samfylkingunni mælum fyrir, þ.e. þessari tillögu um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja.

Það skulu verða mín lokaorð, herra forseti, að það er ekki hægt að segja að við lifum í velferðarþjóðfélagi á Íslandi fyrr en kjör þessara hópa, aldraðra og öryrkja, eru orðin sómasamleg.