Uppeldissvæði rjúpunnar og skógrækt

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:31:41 (5497)

2001-03-12 15:31:41# 126. lþ. 86.1 fundur 362#B uppeldissvæði rjúpunnar og skógrækt# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það hefur valdið mér nokkurri furðu öll sú umræða sem hefur orðið um viðkomandi svar sem hér var lesið upp úr, en þar kom fram að stjórnvöld hefðu tvær meginleiðir og var sagt ,,til dæmis``. Ég vil undirstrika að það stóð ,,til dæmis`` í svarinu. Upplýst hefur verið opinberlega hver gaf okkur upplýsingar hvað varðar þetta svar en það var Ólafur K. Nielsen frá Náttúrufræðistofnun. Ég hef beðið um frekari gögn frá honum. Í þeim kemur fram að hann telji að menn hafi nú þegar ekki valdið skaða. Hins vegar séu blikur á lofti, þ.e. vegna þeirrar umfangsmiklu skógræktar sem menn hafa áhuga á að fara út í.

Ég hef sjálf ekki áhyggjur af því og það kom heldur ekki fram í skriflega svarinu til Alþingis að ráðherra hefði áhyggjur af því. Hins vegar var bent á að ekki mætti eyðileggja uppeldisstöðvarnar með skógrækt. Það er reyndar hægt að gera en við erum ekki að stefna í það, alls ekki. Ég vil undirstrika það.

Við erum að stefna að því að 5% af láglendi verði skógi vaxið og að þessi mál verði í eðlilegum farvegi. Skipulagsyfirvöld, skógræktin og Náttúruvernd ríkisins eru núna sameiginlega t.d. að fjalla um svæðisskipulag á Norðurlandsskógum þar sem menn munu taka tillit til allra þátta. Í svari mínu til Alþingis fólst ekki að við værum að stefna í ranga átt og að ráðherra hefði áhyggjur af þessari þróun. Ég tel að við séum með málin í eðlilegum farvegi en það er rétt að hægt er að eyðileggja uppeldisstöðvar með umfangsmikilli skógrækt ef menn velja svæðin ekki af kostgæfni. En við eru svo sannarlega ekki að stefna í það.