Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:05:42 (5502)

2001-03-12 16:05:42# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:05]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Samfylkingarinnar eru við sama heygarðshornið, að reyna að skapa úlfúð með þjóðinni. Ég hefði einmitt haldið að sátt væri um málið sem hér er verið að kynna. Hér er kynnt frv. þar sem tekið er á málefnum aldraðra og það var ekki síst Samfylkingin sem kallaði á að aldraðir fengju sömu meðferð og öryrkjar í byrjun ársins. Það vill svo til að það frv. sem hér er kynnt á hinu háa Alþingi byggist á samkomulagi við samtök sem gæta hagsmuna aldraðra. (Gripið fram í: Hvaða?) Þetta er samkomulag sem var kynnt, m.a. á blaðamannafundi. Gott væri að heyra ef hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur einhverjar aðrar upplýsingar en ég eða les önnur blöð en ég.

Ég vildi sérstaklega benda á það sjónarmið sem kemur fram hjá hv. þm., að það eigi að reikna þennan rétt nokkur ár til baka. Það kom nefnilega fram, sem er mjög athyglisvert, í umræðunni um öryrkjamálið í þingnefnd, þ.e. þangað kom hálært fólk á sviði mannréttindamála því að málið var rekið sem mannréttindamál, og sögðu að það sem skipti mestu máli í því sambandi væri að horfa til framtíðar. Þeir sögðu mannréttindamál ekki þannig rekin að horft væri til fortíðar. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvort þetta hafi verið mannréttindamál en fyrst og fremst horft til réttarins til framtíðar. Ég held að í stað þess að skapa úlfúð varðandi þetta mál þá ættu hv. þm. Samfylkingarinnar að skoða málið í því samhengi.