Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:10:26 (5505)

2001-03-12 16:10:26# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:10]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég undrast að hv. þm. Ásta Möller sé farin að tala fyrir munn eldri borgara í þessu máli líkt og þeir hafi komist að þessari niðurstöðu. Ég vil þá óska eftir upplýsingum um hvar sú skoðun hefur komið fram. Ég lýsi því jafnframt yfir að það er munur á því hvort menn vilja að mál fái framgang eða hvort þeir telji að fyllilega hafi verið komið til móts við kröfur þeirra. Það er heldur ekki hægt að segja að þetta hafi verið þeirra tillaga í málinu. Ég hvergi séð slíkt hjá Félagi eldri borgara, herra forseti.

Herra forseti. Ég vil mótmæla því að þegar einhver lýsir andstöðu við túlkun ríkisstjórnarinnar á málum eða dómum þá sé því haldið fram að þar með sé reynt að skapa úlfúð. Við höfum ekki skapað úlfúð um þetta mál þó að við séum ósammála ríkisstjórninni um það hvernig eigi að koma til móts við dóm Hæstaréttar, hvorki í þessu máli né því sem við ræddum um í janúar, um málefni öryrkja. Í því felst ekki vilji til þess að skapa frekari úlfúð í samfélaginu, þ.e. umfram þá úlfúð sem ríkisstjórnin hefur nú þegar skapað og verið fyllilega fær um það sjálf.