Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 18:16:41 (5541)

2001-03-12 18:16:41# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[18:16]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Sitthvað höfumst við að á hinu háa Alþingi. Ég óska Suðurnesjamönnum til hamingju með það mál sem hér er lagt fram og vona að það verði þeim til farsældar að stíga þau skref sem hér eru lögð til enda kemur skýrt fram hvaða stefnumótun hið nýja fyrirtæki setur sér og í raun og veru viðheldur af þeirri stefnumótun sem það hafði áður sett sér.

Þetta kemur upp í hugann vegna þess að aðeins örfáir dagar eru síðan við stóðum hér og ræddum málefni Orkubús Vestfjarða. Ég hefði svo gjarnan viljað sjá þær tilvitnanir sem eru í þessu frv., bæði í frumvarpsgreinunum og ég tala nú ekki um í greinargerðinni með frv. sem markmið hins nýja og stækkaða fyrirtækis á Suðurnesjum í orkugeiranum, að þeim hefði verið eitthvað svipað lýst í lögunum um Orkubú Vestfjarða en það er öðru nær, hæstv. iðn.- og viðskrh. Það er öðru nær.

Ég ætla aðeins að lesa úr því frv. sem við ræðum nú, um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja og til þess að stytta mál mitt ætla ég að fara beint í það sem segir um 4. gr., en um hana segir í athugasemdum, með leyfi forseta:

,,Í greininni er megintilgangur hlutafélagsins skilgreindur. Samkvæmt greininni er tilgangur Hitaveitu Suðurnesja hf. m.a. vinnsla og nýting jarðvarma og hvers konar annarra orkuauðlinda, dreifing og sala raforku, orkugjafa og annarra afurða félagsins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins. Hlutverk félagsins tekur því til alls orkuiðnaðar, hvort heldur orkugjafinn er vatnsafl, jarðvarmi, olía eða annað.

Gert er ráð fyrir að nánar sé kveðið á um tilgang félagsins í samþykktum þess. Tilgangi félagsins má síðan breyta á hluthafafundi krefjist aðstæður þess. Með því gefst nauðsynlegt svigrúm til að laga hlutverk félagsins að aðstæðum hverju sinni. Sérstaklega er kveðið á um heimild félagsins til að gerast eignaraðili í öðrum félögum og fyrirtækjum.``

Hver skyldu þau markmið vera sem þetta ágæta félag og fyrirtæki hefur sett sér í gegnum tíðina? Markmiðum Hitaveitu Suðurnesja og samrunaferlinu sem það tók upp við Hitaveitu Hafnarfjarðar var svo lýst í samkomulagi frá 15. okt. 1998, þar sem lýst er yfir áhuga á að kanna möguleika á samstarfi og samvinnu o.s.frv. þessara fyrirtækja og þar kemur markmiðslýsingin. Hún er svona:

,,Markmið sveitarfélaganna:

að ná fram lægra raforkuverði fyrir einstaklinga og fyrirtæki í sveitarfélögunum,

að nýta jarðhitaauðlindir innan sveitarfélaganna og eftir atvikum víðar á landinu,

að öðlast aukna hlutdeild í eigin orkumálum,

að gerast eignaraðilar að öflugu orkufyrirtæki með víðtæka reynslu í vinnslu, sölu og dreifingu á jarðhita og raforku,

að athuga möguleika á því að sveitarfélögin gerist þátttakendur í rekstri orkuveitu, m.a. til að stuðla að lækkun orkuverðs og að koma í veg fyrir að íbúar og fyrirtæki í sveitarfélögunum séu með beinum hætti skattlögð til að standa undir rekstri annarra sveitarfélaga,

að vinna að iðnþróun og uppbyggingu atvinnulífs með því að laða að iðnað sem nýtir auðlindir jarðhitasvæðanna, og

að tryggja, m.a. með stofnun orkugarða, aukna nýtingu áðurgreindra auðlinda og stuðla þannig að aukinni atvinnustarfsemi og auknum tekjum sveitarfélaganna.``

Þetta var árið 1998 þegar þeir sömdu um þetta samrunaferli.

Í nóvember sl. var þessi stefnumörkun endurtekin og um það segir í greinargerðinni:

,,Í nóvember síðastliðnum náðist samkomulag milli stjórnar hitaveitunnar og Hafnarfjarðarbæjar um sameiningu. Efni samkomulagsins kemur fram í samrunaáætlun fyrir Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar, hluthafasamkomulagi, drögum að stofnsamningi fyrir Hitaveitu Suðurnesja hf. og drögum að samþykktum fyrir Hitaveitu Suðurnesja hf. Fulltrúar allra eigenda hafa samþykkt þessi skjöl fyrir sitt leyti.

Helstu efnisatriði samkomulags um sameiningu eru eftirfarandi:

Aðilar eru sammála um að sameina fyrirtækin undir nafni Hitaveitu Suðurnesja.

Heimilisfang félagsins skal vera í Reykjanesbæ, en starfsstöð skal einnig vera í Hafnarfirði.

Byggð verður ný og endurbætt starfsstöð í stað núverandi starfsstöðvar í Hafnarfirði.

Við samrunann fær Hafnarfjarðarbær sem eigandi Rafveitu Hafnarfjarðar eignarhlut í Hitaveitu Suðurnesja og breytist eignarhlutur núverandi eigenda Hitaveitu Suðurnesja sem þessu nemur.

Stefnt er að því jafnframt samruna fyrirtækjanna að gera Hitaveitu Suðurnesja að hlutafélagi. Nafn hins nýja hlutafélags verður Hitaveita Suðurnesja hf. Breyting á rekstrarformi er með fyrirvara um að félagið njóti skattalegs jafnræðis á við önnur orkusölufyrirtæki.

Gjaldskrá vegna raforkusölu verður samræmd með lækkun á gjaldskrá fyrir rafmagn í Hafnarfirði í tveimur áföngum, 1. mars 2001 og 1. október 2001.

Sveitarfélög, sem verða hluthafar í Hitaveitu Suðurnesja, skulu greiða fyrirtækinu fyrir gatnalýsingu hvert á sínu svæði. Þetta fyrirkomulag verður tekið upp í áföngum.

Núverandi eigendur Hitaveitu Suðurnesja skulu í tengslum við samruna fá greiddar 900 milljónir kr. frá fyrirtækinu. Fjárhæðin skal greidd með þremur jöfnum greiðslum.

Stefnt er að því að arðgreiðslur Hitaveitu Suðurnesja hf. til hluthafa verði að jafnaði ekki lægri en sem nemur þriðjungi af rekstrarhagnaði næstliðins árs.

Í stjórn félagsins eiga sæti 11 menn og jafnmargir til vara.``

Já, sitthvað höfumst við að á hinu háa Alþingi ef við berum þá stefnumótun og þá framsækni sem birtist í þessu frv. saman við það frv. sem við ræddum fyrir örfáum dögum um Orkubú Vestfjarða því það má segja kannski að uppistaðan í greinargerðinni þar að öðru leyti en að breyta félaginu í hlutafélag hafi verið þessi efnisþáttur sem ég ætla nú að leyfa mér að vitna í.

,,Um nokkurt skeið hafa staðið yfir viðræður fulltrúa stjórnvalda og sveitarfélaga á Vestfjörðum um lausn á fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Í þeim viðræðum kom fram sú hugmynd að ríkissjóður keypti hlut þeirra sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða sem það vildu til að gera þeim kleift að grynnka á skuldum sínum.``

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

,,Í ljósi framangreinds var það niðurstaða eigenda að æskilegt væri að breyta rekstrarformi fyrirtækisins, enda yrði tryggt að það nyti óbreyttrar stöðu þar til breytingar yrðu gerðar á skipulagi raforkumála. Töldu sameigendur að slík breyting á rekstrarformi fyrirtækisins samræmdist betur þeim breytingum sem verða á næstunni og gerði sveitarfélögum á Vestfjörðum betur kleift að selja hluti sína í orkubúinu.``

Ekki er mikið samræmi, virðulegi forseti, í þeim tveimur frumvörpum sem ég hef hér vikið að, öðru sem var afgreitt eftir 1. umr. um Orkubú Vestfjarða þar sem allur tilgangur lagapakkans er sá að breyta því í hlutafélag til að sveitarfélögin geti selt eignarhlut sinn í Orkubúi Vestfjarða upp í skuldir til að greiða í félagslega húsnæðiskerfinu. Á sama tíma erum við sem betur fer að ræða um orkufyrirtæki annars staðar á landinu, á Suðurnesjum, og ég endurtek hamingjuóskir mínar til Suðurnesjamanna og Hafnfirðinga um þá framsækni þeirra að fá fram í þeirri stefnumótun sem þar er horft á til framtíðar. En hvernig fer blessaður hæstv. ráðherrann? Hvar er sú stefnumótun fyrir raforkumál í landinu? Er hún alveg sitt á hvað eftir því hvort sveitarfélög eru orðin skuldsett í húsnæðiskerfinu? Eða hvernig eiga orkulögin að líta út sem ráðherrann boðar? Hvernig eiga þau að taka á því mismunandi hlutverki sem er lýst í þeim tveimur frumvörpum sem við nú ræðum?

Við höfum reyndar einnig rætt annað frv., um Kísiliðjuna á Mývatni. Verið var að selja það fyrirtæki. Þar var verið að selja hlut ríkisins en ekki öfugt, að ríkissjóður kaupi hlut sveitarfélaga. Þeir fjármunir sem þar áttu að koma inn áttu að notast til atvinnuuppbyggingar á svæðinu og er það vel.

Einnig kom fram tillaga í þessum ræðustól fyrr í umræðunni um það að ef ríkissjóður tæki sig til og seldi hlut sinn í því fyrirtæki sem er nú verið að tala um, Hitaveitu Suðurnesja hf., þá væri sjálfsagt að nýta það til uppbyggingar á Suðurnesjum. Ég get fyllilega tekið undir það. En ég á afar bágt með að sætta mig við þá málsmeðferð og þær fyrirhuguðu breytingar sem verið er að gera á Vestfjörðum sem eru í algjörri andstöðu við það sem verið er að gera annars staðar á landinu og fara algjörlega í bága við það sem aðilar annars staðar á landinu líta til um hvaða framtíð væri hægt að koma til uppbyggingar varðandi atvinnusköpun í ákveðnum landshlutum. Það frv. sem við núna ræðum um Hitaveitu Suðurnesja hf. er vissulega framsækið í þá veru að ætla því fyrirtæki að verða virkur þátttakandi í sköpun atvinnulífs á Suðurnesjum og til eflingar því svæði. En á Vestfjörðum er okkur gert að stofna hlutafélag og megintilgangur þess, eins og ég las upp úr greinargerð með því frv. er sá að gera sveitarfélögunum kleift að selja hluti orkubúsins upp í skuldir svo það megi greiða upp skuldir í félagslega húsnæðiskerfinu sem er vandamál út af fyrir sig á Vestfjörðum vegna fólksfækkunar. En hvers vegna skyldi fólksfækkunin vera? Það skyldi þó ekki vera að það væri önnur stefnumörkun þessara stjórnvalda og hæstv. ríkisstjórnar sem hafa orðið þess valdandi að stórum hluta að það ástand er uppi á Vestfjörðum sem ég hef gert að umtalsefni?

Það er ákaflega nöturlegt, verð ég að segja sem þingmaður Vestfirðinga, að þurfa að horfa upp á það í hv. Alþingi að annars vegar séum við að ræða um að taka eignir á Vestfjörðum og selja þær til að borga skuldir til ríkisins sem safnast hafa upp af öðrum orsökum og annarri stefnu sem haldið hefur verið fram af ríkisvaldinu á sama tíma og við sjáum að í öðrum landshlutum er allt öðruvísi stefnt og er þá sama hvort við lítum til Mývatns eða Suðurnesja.