Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 19:12:11 (5558)

2001-03-12 19:12:11# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[19:12]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki var mörgum af spurningum mínum svarað. Ég skil hv. þm. svo að hann sé í raun að tala um, svo við tölum alveg skýrt, að ríkið yfirtaki allan raforkubúskapinn, það verði ríkiseinokun á því sviði.

Ég ítreka spurningu mína um samrunann sem hér er verið að tala um, milli Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar, hvort þingmaðurinn sjái ekki sóknarfæri í því fyrir bæði fyrirtækin og þau svæði sem þessi fyrirtæki þjóna og hvort hann sjái ekki að það muni styrkja bæði þessi fyrirtæki og íbúa svæðisins, enda standa öll sveitarfélögin á þessu svæði að breytingunni og beinlínis óska eftir henni. Mér þætti vænt um að hv. þm. svaraði því betur.

Ég tel að hann hafi svarað þessu með samkeppnina, að hún muni ekki leiða til lægri orkuverðs og betra sé að hafa ríkiseinokun á því sviði. Það svar er alveg ljóst og ég þakka fyrir þann hluta svarsins.