Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 19:19:40 (5561)

2001-03-12 19:19:40# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[19:19]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að leggja eina spurningu fyrir hæstv. iðnrh. og hún er þessi: Má ekki alveg eins hugsa sér varðandi Orkubú Vestfjarða að ríkið selji hlut sinn í orkubúinu og þeir fjármunir sem þar kæmu inn yrðu notaðir til atvinnuuppbyggingar og skuldalækkunar sveitarfélaga á Vestfjörðum með nákvæmlega sama hætti og ráðgert er að gera varðandi Kísiliðjuna og eins og hæstv. ráðherra lýsti áðan að kæmi alveg til greina varðandi hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf.? Er endilega nauðsynlegt að fara þá leið sem lagt hefur verið upp með varðandi frv. um Orkubú Vestfjarða að sveitarfélögin selji sitt og ríkið kaupi? Má ekki alveg eins nota hina aðferðina að ríkið selji og þá verði það hreinlega skoðað hvort einhver kaupandi finnst? Hvað með t.d. fyrirtækið Norðurál í norðanverðum Hvalfirði sem vantar helling af orku? Hvers vegna skyldi það ekki vilja kaupa hlut t.d. í Orkubúi Vestfjarða og virkja eins og eitt stykki Hvalá norður í Ófeigsfirði og flytja orkuna suður? Hvers vegna ekki? Hvað er svona fjarlægt við það?

Mér finnst að sú stefnumörkun sem birst hefur í þessum þremur málum sem ég hef gert að umræðuefni sé öll í sitt hverja áttina. Ég vil því leggja þá spurningu fyrir hæstv. ráðherra hvort ekki megi alveg eins hugsa sér að selja hlut ríkisins og nota það fé til uppbyggingar á Vestfjörðum sem fyrir það fæst.