Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:18:28 (5590)

2001-03-13 15:18:28# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti ágæta hugvekju um afstöðu sína og viðhorf til þess máls sem við ræðum nú. Ég get ekki sagt að mikið hafi komið á óvart í þeirri ræðu. Hins vegar vekur það dálitla eftirtekt hjá mér að í reynd er það þannig að það er kannski ekki svo langt á milli þeirra viðhorfa sem hv. þm. bar hér fram, og talaði þá fyrir hönd flokks síns, Vinstri grænna, og Sjálfstfl. Rök mín fyrir því eru þau að hv. þm. talaði um að mikilvægt væri að saman færu ábyrgð og áhrif. Hv. þm. verður ekki skilinn öðruvísi en svo að þau áhrif sem hann vill að stjórnmálamenn hafi með því að ríkið eigi þetta séu þau að þeir geti fiktað í lánveitingum, þeir geti komið að því á hvern hátt peningum er ráðstafað o.s.frv.

Þegar ég talaði um Sjálfstfl. rifjaði ég upp ekki fyrir margt löngu að þá kom á daginn að sjálfstæðismenn urðu sumir hverjir æfir sökum þess að banki var seldur, en hann var líklega ekki seldur réttum aðilum, þ.e. þeir vildu að tilteknir aðilar eignuðust bankann. Það voru ekki réttir aðilar sem eignuðust bankann. Að þessu leytinu til er dálítill samhljómur með hv. þm. Ögmundi Jónassyni og tilteknum sjálfstæðismönnum. Það vekur dálitla undrun hjá mér.

En ég spyr hv. þm.: Má ekki hafa áhrif með öðrum hætti? Má ekki hafa áhrif með því að setja almennar leikreglur í þessu samfélagi? Má ekki hafa áhrif með þeim hætti að ríkisvaldið tryggi að eðlilegt eftirlit sé með þessum mörkuðum o.s.frv.? Er ekki hægt að hafa áhrif á annan hátt en þann einan að vera að skipta sér af lánveitingum annars vegar eða eins og sjálfstæðismenn sumir hverjir vilja vera láta, að þeir ráðskist með það hverjir það eru sem eignist bankana?