Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:26:40 (5603)

2001-03-13 16:26:40# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð með frv. kemur fram að um 55 þúsund manns hafi skráð sig fyrir hlut í útboðinu. Það er það sem hv. þm. kallar kennitölusöfnun en staðan er sú að í desember 2000 voru enn 43.818 hluthafar í þessum tveim bönkum, reyndar eitthvað hugsanlega tvítalið. Er ekki gott fyrir ríkisstjórnina að eiga svona marga einkavini? Það er spurning mín til hv. þm. Er ekki fínt fyrir ríkisstjórnina að eiga 43 þúsund einkavini og þar á meðal Kaupþing hf.?

Hv. þm. talaði um fákeppni. Ég gat þess áðan í ræðu minni að íslenskir bankar eru ekki einráðir á íslenskum bankamarkaði. Hér er sívaxandi samkeppni erlendra aðila í stórum stíl bæði til stórnotenda og fjármagnseigenda þannig að ég hugsa að samkeppnin hafi eiginlega aldrei verið meiri en einmitt núna á þessum markaði. Hún fer vaxandi og hún er ekki bara á milli innlendra fyrirtækja heldur milli innlendra fyrirtækja og erlendra fyrirtækja.