Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:28:02 (5604)

2001-03-13 16:28:02# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að hv. þm. hafi ekkert haft fyrir því að lesa samantekt á áliti samkeppnisráðs vegna samruna Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands og skoða hvað Samkeppnisstofnun hafði fyrir sér þegar hún var að tala um að fákeppni væri almennt séð mjög mikil á ákveðnum mörkuðum og mundi vaxa ef yrði af þessum fyrirhugaða samruna. Og hvar var mjög mikil samþjöppun? Hún var bæði á markaði fyrir útlán, hún var á greiðslumiðlunarmörkuðum og hún var á markaði fyrir verðbréf og gjaldeyrisviðskipti. Þetta eru því aðilar sem hafa skoðað mjög vandlega samþjöppun og fákeppni á þessum markaði, mæla hana eftir ákveðnum viðurkenndum stuðlum þar að lútandi og það er niðurstaðan að samþjöppun sé of mikil á bankamarkaði, vald- og samþjöppun sé of mikil. Það er ágætt út af fyrir sig að það séu margir aðilar í bönkunum með hlutabréf til þess að fela þá stóru sem eru með þessi markaðsráðandi ítök. Það þarf ekki að fara lengra en í umræðuna sem við áttum hér, herra forseti, fyrir jólin þar sem við vorum að tala um þessa stóru fjármagnseigendur sem eiga mjög mikið af fjármagni og eignum og þessa aðila, þetta eru vinirnir sem ég er að tala um sem eru með allt of mikil ítök, bæði í bankakerfinu og í þeim atvinnugreinum sem ég nefndi. Þar voru t.d. 636 einstaklingar sem höfðu 20 milljarða í hlutabréfaeign sem þeir gátu frestað skattlagningu á. Við höfum margfarið yfir þetta þannig að ekki þarf að fara langt til þess að leita að þessum einkavinum stjórnarflokkanna.