Skýrslutökur af börnum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:32:15 (5605)

2001-03-13 16:32:15# 126. lþ. 87.95 fundur 375#B skýrslutökur af börnum# (umræður utan dagskrár), Flm. GÖ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Sú umræða sem fram hefur farið í fjölmiðlum á síðustu dögum vegna sýknudóms í héraðsdómi í máli þar sem stjúpfaðir var ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart stjúpdóttur hefur ekki farið fram hjá þingheimi. Í því máli voru lýsingar barnsins, sem studdar voru öðrum sönnunargögnum og sérfræðiálitum, ekki teknar gildar. Ekki mun ég gera efni dómsins sem slíkt að umræðuefni því ekki skal deila við dómarann en slíkur dómur gefur okkur tilefni til að endurskoða þau lög sem um meðferð þessara mála gilda. Það er okkar að tryggja umfram allt réttarstöðu barna í slíkum dómsmálum. Hins vegar skal á það minnt að sýknudómum er sjaldan áfrýjað til Hæstaréttar þó að ég telji fulla ástæðu til í þessu tilfelli.

Fyrir það fyrsta vil ég minna á að einungis brotabrot af þessum alvarlegu málum fara fyrir dómstóla. Þau fara fyrir dómstóla vegna þess að ákæruvaldið telur ríka ástæðu til að láta reyna á málið. Í raun er óheimilt að ákæra nema talið sé líklegt að sakfellt verði. Það er heldur ekki hjá því komist að hugsa um sönnunarbyrði og sönnunargögn þegar kynferðisafbrotamál gagnvart börnum eru annars vegar. Hvers virði eru t.d. játningar sakbornings hjá lögreglu? Hafa þær ekkert að segja? Dugar að segja nei þegar í dóminn er komið?

Hafa skoðanir barnaverndarnefnda og rannsóknir og sérfræðiálit sem þau hafa látið vinna ekkert að segja? Hafa viðtöl við ýmsa sérfræðinga um stöðu barna í svona málum heldur ekkert að segja? Hefur álit og mat foreldra heldur ekkert að segja?

Það er ákært í málum ef sönnunargögn eru talin nægjanleg. Flóknara er það ekki. Aðalreglan er jafnframt sú að börn þurfa ekki að koma fyrir dóm við aðalmeðferð máls. Ég minni á að dómþing getur verið á öðrum stöðum en í dómhúsi, dómþing getur verið á spítala, á heimili og á öðrum stofnunum, t.d. Barnahúsi. Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga þegar kynferðisbrotamál eru til meðferðar.

Aðaláhyggjuefni mitt er fyrst og síðast hvort jafnræði ríkir milli barna. Þurfum við ekki að standa vörð um málstað þeirra? Við þurfum að tryggja jafnræði milli barna, að þau fái öll jafngóða og réttláta meðferð í erfiðum málum. Hvaða málefnalegu rök eru t.d. fyrir því að málsmeðferð sé misjöfn og ólík þegar ákveðið er t.d. hvar yfirheyrsla fari fram?

Hugsum okkur tvö börn, bæði sex ára, annað úr Austurbæ en hitt úr Vesturbæ. Ekki getur þetta snúist um að sum börn séu óheppin og önnur heppin, allt eftir því hvorum megin hryggjar þau lenda í yfirheyrslu. Málin kunna að vera afar svipuð, sama sorgin, sama reynslan og svipaðar aðstæður. Jafnræðisregla stjórnarskrár, 65. gr., hlýtur líka að ná til þessara barna eða hvað?

Stjórnarskrá lýðveldisins er skýr þegar hagsmunir barna eru annars vegar. Í 3. mgr.76. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. ``

Í þessum orðum er stór hugsun sem við eigum að standa við. Við þurfum öll að taka afstöðu til þess hvort okkur finnist ekki eðlilegt, ef um ungt barn er að ræða sem talið er að hafi orðið fyrir kynferðisbroti, að ævinlega sé yfirheyrt við þær aðstæður sem bestar eru taldar fyrir barnið og sjálfan sannleikann því að fyrsti vitnisburður er alltaf mikilvægastur. Um það hljótum við öll að vera sammála og því spyr ég hæstv. dómsmrh. eftirfarandi spurninga:

Í fyrsta lagi: Hver er fjöldi og aldur barna sem hafa verið yfirheyrð vegna kynferðisafbrota, t.d. frá 28. sept. 2000 þegar leiðbeiningar dómstólaráðs lágu fyrir, annars vegar í Barnahúsi og svo hjá dómstólum?

Ég veit ekki hvort hún hefur náð að afla upplýsinga um það, hvort kunnáttumaður sé yfirleitt til staðar hjá dómstólunum en í öðru lagi spyr ég:

Er vilji fyrir því hjá dómsmrh. að breyta lögum til fyrra horfs þar sem lögregla fari með rannsókn máls í stað dómara eða að breyta lögum um meðferð opinberra mála þannig að þau tryggi réttarstöðu barna betur en nú er gert, þá sérstaklega hvað varðar skyldu dómara til að vega hagsmuni barna þegar ákvörðun er tekin um hvar dómþing skuli háð?

Í þriðja lagi spyr ég: Er dómsmrh. kunnugt um verklagsreglur lögreglu í þessum málum, þá sérstaklega vegna fyrirkomulags skýrslutöku, og sjónarmiða lögreglu til hennar?

Ég veit að dómsmrh. mun gera sitt ýtrasta til að svara spurningum mínum.