Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:30:26 (5639)

2001-03-13 18:30:26# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er gaman að hafa tækifæri til þess að eiga orðastað við hæstv. viðskrh. um byggðamál. Það vill svo til að hún er byggðamálaráðherrann og ég held að við höfum aldrei horft upp á annað eins ástand á landsbyggðinni og einmitt eftir að hæstv. ráðherra tók við. Ég vil taka það fram eigi að síður, herra forseti, að ég er ekki að kenna hæstv. ráðherra um það. Þar er fyrst og fremst að leita að sökudólgi í gervi hæstv. forsrh. sem hefur síðasta áratuginn verið byggðamálaráðherra og undir hans forustu hefur aldrei verið annar eins flótti af landsbyggðinni og einmitt á þessum tíma. Ég held að fullyrða megi að í einhverri einustu viku hafa að meðaltali sex fjögurra manna fjölskyldur farið af landsbyggðinni hingað suður í þéttbýlið eftir að hæstv. forsrh. tók að sér það hlutverk að veita byggðamálunum forustu. Eins og við vitum fleygði hann því að vísu frá sér eins og heitri kartöflu og það var í ákveðnum makaskiptum við Framsfl. að það lenti í fangi hæstv. viðskrh. Við vitum líka hvernig hæstv. viðskrh. hefur risið undir þeirri ábyrgð.

Var það ekki hæstv. viðskrh. sem átti að hafa forgöngu um að hrinda í framkvæmd byggðaáætlun? Henni mistókst það svo herfilega að hún er að hugsa um að byrja upp á nýtt og hefur boðað það að koma með nýja byggðaáætlun þó ekki sé liðinn nema helmingurinn af þeim tíma sem átti að fara í að framkvæma hina fyrri. Muna menn lúðrablásturinn og sönginn sem dundi úr byggðamálaráðuneytinu hinu nýja við Arnarhvál þegar fram kom hin fræga skýrsla um fjarvinnslu? Var það ekki hæstv. viðskrh., þáv. þm. hv. Valgerður Sverrisdóttir, sem tók þátt í því að lýsa því yfir að það yrðu til 500--1.000 störf á landsbyggðinni í tengslum við fjarvinnslu? Síðan hefur hæstv. viðskrh. mátt þola þá smán að þurfa að rífast í sölum hins háa Alþingis um það hvort það sé eitt starf eða þrjú störf sem hafa verið flutt í krafti þessarar byggðaáætlunar í fjarvinnslumálunum á landsbyggðina.

Þarf að rifja upp hversu hraklega hæstv. viðskrh. stóð sig á hinum fræga fundi á Ólafsfirði? Þarf að rifja það upp, herra forseti, þegar hún lofaði því að þá mundi verða gripið til ákveðinna ráðstafana til að flytja tiltekin verkefni á Ólafsfjörð? Hæstv. viðskrh. lýsti því yfir á fundinum á Ólafsfirði 6. mars að fyrir lok þess mánaðar yrði frétta að vænta. Hvernig hefur hæstv. ráðherra staðið í því? Nákvæmlega eins og í bankamálunum. Nákvæmlega eins og í samráðinu við starfsmennina, hún hefur kiknað undan þeirri byrði vegna þess að ekkert hefur gerst í þeim málum. Stórsóknin sem hæstv. ráðherra er í á landsbyggðinni felst í því að hörfa stöðugt undan eigin loforðum. Þannig er nú öll reisnin yfir því, herra forseti.

Af því hæstv. ráðherra talar sérstaklega um fulltrúa Samfylkingarinnar í Byggðastofnun verður að rifja það upp að það fer um þá eins og fulltrúana sem Samfylkingin átti einu sinni í bankaráði Búnaðarbankans, að þeir eru skipaðir af ráðherra þannig að þeir sem sitja í stjórn Byggðastofnunar eru að sjálfsögðu á ábyrgð ráðherra. Allt er það hið mætasta fólk, líka sá ágæti framsóknarmaður sem þar situr og virðist hafa u.þ.b. sama skilning og hæstv. viðskrh. á nauðsyn þess fyrir landsbyggðina að snúa vörn í sókn. Við vitum hvernig það hefur tekist. Eigum við að spyrja Bolvíkingana hvernig það hafi tekist? Eigum við að fara úr þorpi eftir þorpi, heimsækja byggðarlag eftir byggðarlag og spyrja: Hvernig hefur ykkur vegnað undir forustu þessa hæstv. byggðamálaráðherra? Staðan er einfaldlega sú að aldrei hefur nokkur flokkur brugðist jafnhrapallega væntingum landsbyggðarinnar og Framsfl. hefur gert undir forustu þessa hæstv. viðskrh.

Hvað er það sem veldur því að hæstv. viðskrh. rís ekki undir þeim loforðum sem Framsfl. hefur gefið? Undir hverju fór Framsfl. í kosningabaráttu? Var það ekki ,,Fólk í fyrirrúmi``? Eigum við að segja það við starfsmenn bankanna? Hæstv. viðskrh. hefur einurð og kjark í sér til þess að koma hingað og snúa sannleikanum á hvolf þegar hún heldur því fram að hún hafi haft samráð við starfsfólk bankanna. Hún kemur hér kokhraust og segir: ,,Ég hafði víst samráð, mér mjög til gagns``, þegar hún var í busluganginum fyrir jólin, sem varð til þess að verðfella bankana svo milljörðum skipti. Hvert var það samráð? Er ekki rétt að rifja það upp, herra forseti? Samráðið fólst í því að hún kippti nokkrum starfsmönnum bankanna úr forustu starfsmannafélaganna inn á teppið til sín, rétt fyrir hádegi sama daginn og hún tilkynnti í fjölmiðlum að hún hygðist sameina bankana, tveimur eða þremur dögum eftir að hún hafði nánast neitað því hér í þessum sölum. Þetta er kjarkurinn. Þetta er hreinskilnin hjá hæstv. viðskrh.

Herra forseti. Hvað er það sem gerir það að verkum að hæstv. viðskrh. virðist vera í sérstakri krossferð gegn starfsfólki bankanna? Hún hefur hafnað þrennu hér. Í fyrsta lagi hefur hún hafnað því að beita sér fyrir því að starfsmenn bankanna fái sæti í bankaráðunum eftir sölu bankanna. Hún segir: Það þarf enhverja sérstaka samninga til þess. Ekki þarf það á Norðurlöndunum, herra forseti, þar sem meira að segja einkabankarnir hafa tekið þetta upp. Fyrst hæstv. ráðherra er genginn svona harkalega með Framsfl. á bakinu í björg einkavæðingarinnar, af hverju tekur hún þá ekki upp fordæmið frá einkabönkunum á Norðurlöndunum?

Hæstv. viðskrh. kemur hérna og segir við konurnar, sem þurfa e.t.v. að horfa upp á það tapa störfum sínum hjá Búnaðarbankanum, að hún hafi litla samúð með þeim. Það sé ekkert sem hún geti gert. Hvers vegna? Vegna þess að það gæti orðið til þess að verðfella bankana ef gerður væri svipaður samningur og bankarnir á Norðurlöndunum hafa gert við starfsfólk sitt um að starfsmannaveltan yrði látin sjá um þá hagræðingu sem þarf að ganga í gegnum. Hvers vegna getur hæstv. ráðherra ekki tekið upp hið sama gagnvart konunum sem vinna hjá bönkunum? Við vitum það, eins og ég reifaði í dag, að ef konum á aldrinum 55--60 ára, sem hafa verið alla starfsævi sína á sama stað, er sagt upp, þá jafngildir það áskrift á atvinnuleysisbætur. Ber okkur þá engin siðferðileg skylda til þess að hugsa um þetta fólk þegar við erum að breyta starfskjörum bankanna? Auðvitað. Það er þar sem skilur á milli þeirra félagslegu og mannúðlegu sjónarmiða sem við höfum í Samfylkingunni og hjá Framsfl. sem hefur núna gleymt hugsjónum sínum.

Herra forseti. Það sem skiptir máli hérna er að hinn rétti tilgangur einkavæðingarinnar er kominn fram. Ekki þarf að spyrja um tilganginn hjá Sjálfstfl., þetta hafa alltaf verið trúarbrögð hjá honum. En það gegnir öðru máli um garminn hann Ketil. Hann hefur aldrei verið þeirrar skoðunar að Biblían, sem ætti að lesa kvölds og morgna, væri einkavæðingarboðskapur Sjálfstfl. En nú er sem sagt sannleikurinn kominn í ljós. Tilgangurinn er sá að búa til nýjan banka til að setja í einhver verkefni sem hæstv. viðskrh. hugsar upp til að kaupa sér atkvæði fyrir sig og flokk sinn á landsbyggðinni. Til þess að hreinsa upp eigin mistök. Til þess að bæta fyrir afglöp sín. Til þess að Framsfl. verði ekki með allt niður um sig í byggðamálum þegar kemur til kosninga. Þá á núna að selja bankana til þess að búa til nýja ríkisstofnun til þess að lána í gæluverkefni og til vildarvinanna á landsbyggðinni. Heyr á endemi.

Hvað segja þingmenn Sjálfstfl. við þessu? Ég hélt, herra forseti, að þetta hefði dottið upp úr hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni af rælni í sjónvarpsiðtali, en að heyra það hér að þetta séu ekki bara prívatskoðanir hv. þm., heldur er þetta bersýnilega stefnan sem Framsfl. ætlar að leggja með upp fyrir flokksþing sitt til þess að hysja upp um ráðherrana, til þess að reyna að bæta fyrir mistök þeirra í byggðamálum þá á að selja bankana til að fara í svona björgunaraðgerðir fyrir hæstv. ráðherra. Herra forseti. Ég segi það eitt: Þetta er hneyksli.