Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:52:01 (5643)

2001-03-13 18:52:01# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég frábið mér að fulltrúi vinstri grænna komi hér upp og afbaki hér hvað eftir annað stefnu Samfylkingarinnar varðandi sölu á bönkunum. Stefna okkar er mjög skýr. Ég hef farið yfir hana hér sem og fleiri fulltrúar Samfylkingarinnar í þessu máli. Sýn okkar á þessa sölu, hvernig að henni eigi að standa nú og síðar, er allt önnur en fulltrúa ríkisstjórnarinnar.

Ég hefði nú talið að hv. þm., fulltrúi vinstri grænna, væri maður að meiri ef hann viðurkenndi það sem rétt er í þessu máli og reyndi að fara rétt með stefnu Samfylkingarinnar vilji hann reyna það á annað borð. Vinstri grænir segja að selja ætti bara annan bankann. Hið sama segjum við, að ekki ætti að veita heimild nema fyrir sölu á öðrum bankanum. Við setjum fram skilyrði sem vinstri grænir hljóta að taka undir, t.d. í starfsmannamálum og hvernig eigi að tryggja dreifða eignaraðild. Ég hélt að við ættum það sameiginlegt að stilla okkur upp gegn þessari ríkisstjórn. Vinstri grænir koma hér með spjótin í bakið á okkur og reyna ekki einu sinni að fara með rétt mál í þessu efni.