Fjöldi öryrkja

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:53:24 (5757)

2001-03-14 15:53:24# 126. lþ. 89.10 fundur 544. mál: #A fjöldi öryrkja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Herra forseti. Mig langar að beina eftirfarandi fyrirspurn til heilbrrh.:

1. Hve margir eru öryrkjar hér á landi og hvernig skiptast þeir eftir sjúkdómaflokkum? Er sú skipting svipuð og annars staðar á Norðurlöndum?

2. Hver er hlutfallslegur fjöldi öryrkja á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd?

3. Hve stór hluti öryrkja býr í Reykjavík?

Ástæða fyrirspurnarinnar sprettur helst upp úr skýrslu, sem ég rakst á sem er um umfang og einkenni örorku á Íslandi árið 1996, eftir þá Sigurð Thorlacius, Sigurjón Stefánsson og Stefán Ólafsson, en þar er tiltekið að á þeim tíma voru tæplega 9.000 einstaklingar búsettir á Íslandi með gilt örorkumat samkvæmt lífeyristryggingum almannatrygginga. Metin hafi verið meira en 75% örorka í 7.315 tilvikum og þar voru konur í meiri hluta. Eftir því sem ég veit best er fjöldi örorkulífeyrisþega sem hundraðshlutfall af íbúum landsins svipaður hér á Íslandi og í Danmörku, a.m.k. var hann það um þetta leyti. En það væri fróðlegt að heyra frá ráðherra hvort nýrri upplýsingar liggja fyrir og hvernig fjöldi öryrkja er miðað við önnur lönd.

Ástæðan fyrir að ég spyr um hve stór hluti öryrkja búi í Reykjavík liggur kannski í augum uppi, verandi Reykjavíkurþingmaður, þá finnst mér skipta máli hvernig höfuðborgin býr að öryrkjum sínum og þess vegna legg ég fram þessa fyrirspurn. Sömuleiðis langar mig að vita hverjar helstu sjúkdómsgreiningarnar eru.