Byggðakvóti

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:09:29 (5767)

2001-03-14 18:09:29# 126. lþ. 89.11 fundur 499. mál: #A byggðakvóti# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þótt oft megi deila um byggðakvótann og hvernig honum hefur verið deilt út, þá ætla ég svo sem ekkert að fara út í þá umræðu hér. Það sem mér finnst vera athyglisvert við þessa umræðu er að flestar þær byggðir um landið hafa orðið til vegna nálægðar við sjóinn, hafa orðið til vegna þess að þaðan hafa menn getað gert út og sótt í auðlindina. Mér þótti svar hæstv. ráðherra mjög sérstætt. Aðspurð um þessi efni, af því að hún er nú hæstv. byggðamálaráðherra, þá svaraði hún því til að þar sem málið væri í nefnd, þar sem verið væri að leita sátta milli ólíkra sjónarmiða, milli ólíkra hagsmuna o.s.frv., þá hygðist byggðamálaráðherra á meðan ekki á neinn hátt breyta neinu. Það kom fram í gær að byggðamálaráðherra taldi sig vera í stórsókn, en hver sú sókn er er ekki gott að segja.