Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:56:43 (5809)

2001-03-15 11:56:43# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:56]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að benda á þann ótrúlega tvískinnung sem fram kemur í málflutningi vinstri grænna í þessu máli. Í einu orðinu fagna þeir frumkvæði og dugnaði Hitaveitu Suðurnesja og þeirra sem að þessu standa en í næsta orði reyna þeir allt til að koma í veg fyrir það að þessi áform nái fram að ganga.

Mér finnst sorglegt að hægt sé að halda uppi slíkum málflutningi. Þetta virðist hafa virkað úti í þjóðfélaginu. Þessi málflutningur hefur fengið fylgi meðal þjóðarinnar. Hér er reynt að gera mál tortryggilegt vegna atriða sem löngu er búið að útskýra að eru bara eðlilegur framgangur mála sem tíðkast í hv. Alþingi.

Það að blanda þjóðlendumálinu inn í þetta er aftur á móti augljós tilraun til að eyðileggja málið, augljós tilraun vinstri grænna til að eyðileggja þetta mál. Það vita allir sem hafa kynnt sér störf óbyggðanefndar og hvernig þau mál ganga fyrir sig að það tekur mörg ár að afgreiða kröfur óbyggðanefndar á öllum stigum. Með því að halda því fram að ganga hefði átt frá málefnum óbyggðanefndar fyrir fram þá eru vinstri grænir í raun að segja: Við viljum ekki afgreiða þetta mál fyrr en í fyrsta lagi eftir fimm ár eða svo. Það er einfaldlega niðurstaðan. Það er sorglegt til þess að vita að menn skuli blygðunarlaust standa í vegi fyrir þeim framförum sem reynt er að stuðla að á Suðurnesjum og víðar í máli sem þessu.