Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 12:34:24 (5820)

2001-03-15 12:34:24# 126. lþ. 90.3 fundur 542. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímareglur EES o.fl.) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[12:34]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er komið til 1. umr. afar merkilegt frv. Þar sem starfsmaður ráðuneytisins er á förum í annað starf þá mættu þeir til fundar við félmn. þingsins, til þess að segja aðeins frá þessari vinnu og þessu væntanlega frv., þ.e. sá lögfræðingur og forstöðumaður Vinnueftirlitsins. Þar var farið aðeins yfir málið og í sjálfu sér var mjög gagnlegt að hafa slíkt vinnulag, ég verð að játa það.

Til grundvallar þessu frv. er starf nefndar og í rauninni er málið búið að vera í pípunum gríðarlega lengi þó það birtist fyrst núna. Ætli það séu ekki ein 2--3 ár síðan þessi vinna hófst. Svo vönduð vinna getur vitanlega skilað sér í mörgu góðu.

Ég vil að hluta til taka undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni hversu merkilegt þetta er varðandi heilsugæsluna. Það er ákveðið nýmæli og einmitt þrautalending sem kann að stafa af því að heilsugæslan hefur ekki haft fjármagn til að virka sem skyldi í vinnuverndarmálum og slysvörnum. Það beinir náttúrlega huganum að ófullnægjandi uppbyggingu heilsugæslunnar, t.d. í Reykjavík. Það er kannski ekki skrýtið að burði skorti til þessara mála. Hins vegar hafa samhliða komið upp sjálfstætt starfandi heimilislæknar o.s.frv. Með þessu er því einnig átt við að í raun verði hægt að nýta þjónustu þeirra en ekki bara sjúkrahúsin og hina formlegu heilsugæslu. Þannig yrði hægt að sinna málinu. Frv. gerir þrátt fyrir allt ekki ráð fyrir að nokkuð muni breytast í heilsugæslunni eins og hún er og það er auðvitað afar bagalegt.

Mig langaði hins vegar að vekja athygli þingmanna á því sem varðar undanþegnar starfsgreinar. Ég hef mjög gaman af slíku. Á bls. 8 í frv. sjálfu, ef þingmenn vilja fletta, eru ákveðnar starfsgreinar undanþegnar en hins vegar verða það ekki allar. Það mun breytast með tíð og tíma í tengslum við vinnutímatilskipunina.

Ég vil benda á c-lið II. kafla 3 í athugasemdum með frv., þ.e. varðandi lækna í starfsnámi. Það er greinilega samevrópskt eða alþjóðlegt vandamál að þeim megi þræla út í eitt og ekki að eigi að taka á því fyrr en 2003. Það á greinilega ekki bara við á Íslandi heldur alla Evrópu og ef það yrði gert þá mundi sjúkraþjónustan hrynja, það er ekki flóknara en svo. Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða sérstaklega í nefndinni.

Mér finnst einnig afar áhugavert þetta með fræðsluna sem ég vil meina að sé eitt af lykilatriðunum varðandi hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Á bls. 12 í frv. er rætt um að fræðslan taki til ýmissa atriða sem ekki voru í gömlu lögunum. Það eru náttúrlega komin 20 ár síðan þau lög voru samþykkt. En á bls. 12 segir, með leyfi forseta:

,,Fræðslan getur tekið til ýmissa atriða, svo sem mannlegra samskipta, streitustjórnunar, álagssjúkdómavarna, mengunarvarna, meðferðar hættulegra efna, hávaðavarna, lýsingar og innilofts, slysavarna,`` o.s.frv.

Þarna eru vinnubrögðin færð til nútímans og þess sem fólk á vinnustöðum býr við í raun.

Jafnframt er afar mikilvægt að taka sérstaklega á varðandi forvarnir og verður að mörgu að hyggja í nefndinni þegar farið verður yfir frv. Hins vegar liggur afar góð og mikil vinna á bak við frv. og nefndin mun fá bæði þær skýrslur og annað sem liggja þar til grundvallar. Þannig verður farið yfir málið og þetta er skref fram á við þó auðvitað sé ekki sátt um allt sem þar kemur fram. Það verður gagnlegt að skoða málið í hv. félmn.