Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 15:21:35 (5844)

2001-03-15 15:21:35# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu þáltill. um átak til að auka framboð á leiguhúshæði. Eins og 1. flm. greindi frá er allur þingflokkur Samfylkingarinnar á þessu máli. Kannski er þetta spurning um að gera þjóðarátak í þessum málum. Mig langar til að minna þingmenn á mjög gagnmerka skýrslu sem hæstv. félmrh. lét vinna um húsnæðismálin. Þar kemur fram mjög margt gagnlegt.

Ég þekki afar vel til húsnæðismála í Reykjavík og þá ekki síst þeirra biðlista sem hér eru þar sem ég var formaður félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar sem var með þessi mál á sinni könnu. Við sáum hvernig bættist við þessa biðlista ár frá ári og ekkert var hægt að gera. Það er frægt gat í þessum kerfum. Það þarf ákveðið tekjuviðmið til að fá leiguhúsnæði og síðan næstum annað tekjuviðmið þegar þarf að fara að kaupa. Síðan er þessi millihópur sem á hvergi heima og er mjög erfitt að leysa vandann fyrir. Það hefur auðvitað verið að gerast jafnt og þétt á höfuðborgarsvæðinu að fólk kemur af landsbyggðinni og það kemur auðvitað líka fólk af landsbyggðinni, sem er fátækt, er ekki með mikið á milli handanna og vill auðvitað fara á biðlista í þeim sveitarfélögum sem það er að flytja til. En það gengur ekki því að það þarf að hafa búið nokkuð mörg ár í sveitarfélaginu. Það er arfur gamallar sveitfesti að viðhalda þessu en það er náttúrlega reynt að halda í þetta meðan ekkert gerist á hinum endanum varðandi aukningu á fjármagni og aukningu bygginga leiguíbúða.

Við þekkjum öll þetta með húsaleigubæturnar og spurningu um að afnema skattinn af þeim. Það er réttlætismál sem flest allir taka nú undir að sé orðið tímabært að verði samþykkt í þinginu. Þá má ekki heldur gleyma því að nokkrir lenda í erfiðleikum með húsaleigubæturnar því þar eru ákveðnar reglur. Þá er ég ekki hvað síst að hugsa um landsbyggðarfólk því það er mjög algengt eins og við þekkjum að landsbyggðarfólk þarf að senda börn sín langt í burtu til náms. Þá hefur það stundum farið þannig að landsbyggðarfólk hefur t.d. reynt að kaupa litlar kjallaraholur í stað þess að láta börn sín greiða rándýra leigu í annarra vasa. Þessi hópur hefur átt mjög erfitt gagnvart húsaleigubótalögunum því um leið og það er mikill skyldleiki, þó lögheimili foreldra sé annars staðar, þá fá þau ekki húsaleigubæturnar greiddar. Þetta er nefnilega ekki spurning um misnotkun á einhverju kerfi, heldur erum við þarna að tala um að rétta hlut ungmenna, t.d. utan af landi, sem eru hér í háskólanámi eða öðru og fá ekki inni á görðum. Þetta er eitt af því sem ég veit að hæstv. félmrh. er meðvitaður um og væri afar þarft að skoða sérstaklega.

Það eru langir biðlistar eftir leiguhúsnæði núna og erfitt að sinna þessari þörf. Reynt var að gera kerfið meira gegnsætt hjá Reykjavík með stofnun Búseta. Þá var maður að vona að það mundi gerast að fólk yrði tímabundið í því húsnæði á meðan það væri að komið sér upp öðru og færi þá inn í önnur kerfi. En það virðist ekki hafa gerst. Það er líka spurning hvort ekki væri hægt að skoða kaupleigukerfi, hvort það verði ekki núna að velta upp öllum þúfum, öllum góðum hugmyndum, sem hafa verið settar til hliðar og ekki verið notaðar aftur þannig að allt verði gert til þess að auka framboð á húsnæði.

Auðvitað er það svo með lífeyrissjóðina, svo ég komi aðeins inn á það, að þeir eru að fjárfesta í útlöndum, í misjafnlega árangursvænum sjóðum. En ég held að það hafi hingað til verið arðvænlegast að fjárfesta í steinsteypu á Íslandi. Ég held að það væri í sjálfu sér bara mjög gott að gera það hér. Kannski væri hægt að fá lífeyrissjóðina með í átak um þetta mál.

Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að fá svona átak í gang. Ég fæ ekki betur séð en að mikið af þeim tillögum sem eru í skýrslunni væri hægt að nýta einmitt í slíku átaki. Ég vona því að þáltill. fái góða umræðu í nefnd og það fáist umsagnir um hana, sérstaklega frá lífeyrissjóðunum og verkalýðshreyfingunni.