Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 17:04:40 (5869)

2001-03-15 17:04:40# 126. lþ. 91.4 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega svo að þegar þáltill. er lögð fram í svo viðamiklu máli sem öryggismál sjómanna eru, þá er eitt og annað sem menn sjá að betur hefði mátt fara. En ég hef þá trú að að fenginni samþykkt þáltill. sé auðvitað margt sem muni vinnast jafnhliða í málinu.

Aðeins út af þeim fyrirspurnum sem fram komu, þá get ég upplýst hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson um að þessi STCW-regla sem hann minntist á er í því frv. sem stendur til að leggja fram varðandi áhafnir íslenskra skipa. Í annan stað veit ég að samgrn. hefur óskað eftir því við utanrrn. að svokallað STCW-F, þ.e. fyrir fiskiskipin, verði staðfest svo fljótt sem verða má. Það gengur þar í gegn vegna þeirrar alþjóðasamþykktar sem þarna er verið að ræða um.

Ég veit einnig varðandi þyrluna, að í ráðuneytinu er núna verið að vinna að sérstökum þjónustusamningi við Slysavarnafélagið Landsbjörg þar sem einmitt verður gengið frá þeim þætti sem áhrærir þyrluna, þannig að hún verði áfram í þessu starfi.

Ég vil einnig aðeins geta þess sem þm. hv. hefur eflaust orðið var við og nefndi, þ.e. fyrirspurnir mínar í sambandi við flugflota Landhelgisgæslunnar, hvernig hann er nýttur til gæslu og björgunar og þar á meðal í æfinga í Slysavarnaskóla. Þar kom ýmislegt athyglisvert fram m.a. það sem hv. þm. kom inn á, kröfur um greiðslur sem við erum ekki allir sáttir um hvernig krafið er. En auðvitað eru slegnar tvær flugur í einu höggi, annars vegar æfingar fyrir sjómenn og fyrir flugmennina sem svo mikilvægu hlutverki gegna í sambandi við björgun, bæði til sjós og lands.