Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 17:08:11 (5871)

2001-03-15 17:08:11# 126. lþ. 91.4 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í tillögunni er m.a. lögð áhersla á menntun og starfsþjálfun sjómanna. Það er á sínum stað vegna þess að eins og margoft hefur komið fram eru vinnuslys, slys til sjós, afskaplega algeng og Lífeyrissjóður sjómanna hefur sérstöðu hvað það varðar hversu hátt hlutfall útgreiðslna hans eru örorkugreiðslur.

Hér er fjallað um starfsþjálfun og menntun á bls. 15 í greinargerð þáltill. Það er ljóst að verkstjórn hefur sitt að segja um hversu mikið öryggi starfsmanna er. Oft lenda óvanir menn í slysum og þess vegna vildi ég gjarnan heyra álit hv. þm., sem er menntaður og reyndur skipstjórnarmaður, hvort hann telji að sú breyting sem gerð var á skipstjórnarnámi fyrir nokkrum árum þar sem bóklegi þátturinn var lengdur um tvö ár en verklegi þátturinn skorinn niður um 3/4 sé í einhverju samræmi við það sem menn eru síðan að leggja hér til varðandi þjálfun. Eins og hér segir, með leyfi forseta: ,,Verknám er mikilvægt til að þjálfa nemendur í siglingu, veiðum, hífingum og að sigla skipi að og frá bryggju. Þessi atriði skulu vera hluti af starfsþjálfun stýrimannsefna.`` Spurning mín er þessi: Telur hv. þm. að sex mánuðir nægi væntanlegum yfirmanni á fiskiskipum okkar miðað við þær kröfur sem við hljótum að gera og ég nefni nú bara það sem hér er skrifað?