Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 18:39:12 (5901)

2001-03-19 18:39:12# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki hægt annað en taka undir fjölmargt af því sem komið hefur fram hjá hv. ræðumönnum. Það er ekkert gamanmál að grípa inn í deilu eins og það er orðað á þennan hátt. En eins og ég reyndi að útskýra í fyrri ræðu minni, framsöguræðu minni, eru gríðarleg verðmæti í húfi, bæði hvað varðar loðnukvótann og vertíðarflotann. Það er von að menn spyrji hvernig á því standi að alltaf þurfi að grípa inn í á Alþingi þegar um slíka deilu er að ræða. Eins og margoft hefur komið fram hjá mér hefur það ekki gengið til að leysa slíkar deilur endanlega. Og það er heldur ekki lagt upp með það í frv. að þessi deila verði leyst með því að verkfallinu verði frestað, enda verður væntanlega ekki hætt að ræðast við og menn hætta ekki að reyna að leita samninga. Ábyrgðin hlýtur eftir sem áður að vera á herðum deiluaðila, að þeir finni og nái lausn í málinu.

Ég hefði kannski ekki orðað þetta eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, hann notaði orðin ,,ömurlegt hlutskipti``, en kannski hefur orðalag mitt haft sömu þýðingu. Hins vegar minnir mig að þessu hlutskipti, hvernig sem það er orðað, hafi ég deilt með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, því það var einmitt hlutskipti ríkisstjórnar sem hann sat í að leysa deilu með lagasetningu og setja lög sem bönnuðu verkfall, ekki bara fresta því, heldur lög sem bönnuðu verkfallið og festu samningana samkvæmt löggjöfinni. Ekki er verið að leggja það til hér. Einungis er verið að skapa svigrúm fyrir samningamenn til að þeir geti ræðst við áfram og leitað að niðurstöðu, án þess að það kosti þjóðarbúið milljarða. Því að þeir dagar sem nú fara í hönd og reyndar síðustu dagar eru sennilega einhverjir verðmætustu dagar á árinu fyrir þjóðarbúið. Það er margfeldi af verðmæti meðaldagsins sem við tökum inn á þessum dögum.

Þess vegna er ég að leggja til að verkfallinu verði frestað til þess að þjóðarbúið verði ekki af þessum verðmætum og til að gefa mönnum ráðrúm til að halda áfram að semja án þess að yfir þeim hangi að þeir séu að hafa þessi verðmæti af þjóðarbúinu. Ég held að það hljóti að liggja þungt á þeirra herðum alveg eins og það liggur þungt á mínum herðum að vita af þeim möguleika að þjóðarbúið verði af slíkum verðmætum. Það er ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt, það er til að gæta þess að þjóðarbúið verði ekki af stórkostlegum verðmætum.

Herra forseti. Í upphafi umræðunnar kom fram misskilningur um það hvernig menn höfðu ætlað sér að standa að framgangi málsins á Alþingi. Ég sé enga ástæðu þess vegna að breyta neitt frá venjulegum gangi mála, að málið fari til nefndar. Því vil ég breyta tillögu minni frá því í framsöguræðunni og leggja til að að lokinni 1. umr. fari málið til nefndar og 2. umr.