Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 21:25:56 (5915)

2001-03-19 21:25:56# 126. lþ. 95.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, GE
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 126. lþ.

[21:25]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það hefur verið ljóst svo mánuðum skiptir í hvað stefndi. Um árabil hefur verið deilt um verðmyndun til skipta milli sjómanna og útvegsmanna og fleira. Ríkisstjórnin kórónaði svo málið með því að leggja fram frumvörp um fækkun í áhöfnum ákveðinna skipaflokka, eftir stærð og vélarafli. Þar á ég við um vélstjóra og stýrimenn. Þessi frumvörp eru einhvers konar þjónkunaraðgerðir við útvegsmenn. Þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa virkað sem olía á það deilubál sem logað hefur síðustu ár.

Það er ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki staðið undir nafni í þessu máli fremur en í mörgum öðrum sem hún hefur á sinni könnu. Mér er ljóst að lagasetningin sem við erum að fjalla um mun ná fram að ganga. Að mínu mati er hún hins vegar ofbeldisaðgerð gegn sjómönnum. Viðbrögð útvegsmanna hafa einkennst af þeirri vissu að hæstv. ríkisstjórn gripi inn í með lagasetningu á einhvern hátt.

Mönnum er ljóst að það verður alltaf tjón í verkfalli og sennilega sjaldan jafnmikið og þegar um er að ræða sjómannaverkfall. Hæstv. sjútvrh. boðaði tillögur um að fresta verkfalli til 1. apríl í stað 19. apríl í frv. upphaflega. Það má auðvitað velta því fyrir sér hver áhrifin verði af þeirri frestun.

Menn hafa nokkuð lengi vitað að nokkuð góðar horfur voru á góðum loðnuafla. Samt gengu útvegsmenn að viðræðum með hangandi hendi. Þó ljóst væri að loðnan væri í hvað best veiðanlegu ástandi, verðmætust, styst að sækja hana og með minnstum tilkostnaði, olíukostnaði o.s.frv. þá dugði það ekki. Það dugði ekki í þessu deilumáli. Stjórnvöld grípa hins vegar inn í eftir liðlega helgarlangt verkfall með lagasetningu.

Herra forseti. Sá vandi sem við er að etja er í raun fiskveiðistjórnarkerfið og hvernig unnið er eftir reglum þess. Sú framkvæmd er orsakavaldurinn að þessum deilum, sem leitt hafa til verkfalls hvað eftir annað. Við ættum að minnast orða jöfursins Einars Benediktssonar en hann sagði, með leyfi forseta, í kvæði sínu ,,Sjá hin ungborna tíð``:

  • ,,Allt skal frjálst, allt skal jafnt, réttan skerf sinn og skammt
  • á hvert skaparans barn, allt frá vöggu að gröf.
  • Þetta boðorð knýr fram, knýr menn brautina fram
  • undir blikandi merkjum um lönd og um höf.``
  • Sá framsýni meistari, Einar Benediktsson, vissi að sá guli var utar en hann vissi kannski minna um loðnuna. Hann vissi hins vegar að það var framfaraþörf og að íslensk þjóð varð að sækja þekkingu og nýta þá tækni sem möguleg var og verður. Í því hefur ekkert breyst.

    Íslenskt samfélag býr enn við að það eru hér sitja að völdum menn sem vilja ekki breyta, eru hræddir við framtíðina og hræddir við breytingar. Það er svo undarlegt hve fáir njóta þess að kvótakerfið sem við búum við hefur skapað nýja aðferð til að hagnast. Það hefur þróast á óhugnanlegan hátt sem hvorki formælendur né andmælendur kerfisins sáu fyrir.