Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:19:46 (5929)

2001-03-26 15:19:46# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sýnir þinginu mikla lítilsvirðingu með því að leggja að jöfnu aðgang almennings að upplýsingum og kjörinna fulltrúa Alþingis sem hafa með höndum eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því: Tekur hann ekki mark á því sem hann segir sjálfur eða kemur fram í þeirri skýrslu sem hann hefur lagt fyrir á Alþingi og mælt fyrir? En þar segir, með leyfi forseta:

,,Leggja verður til grundvallar að fyrrnefndur réttur alþingismanna til aðgangs að upplýsingum um opinber málefni ráðist ekki af upplýsingalögum heldur byggist hann á sjálfstæðri heimild sem er að finna í 54. gr. stjórnarskrárinnar.``

Til þess er líka vísað að í dönskum rétti er á því byggt að aðgangur þingmanna að upplýsingum ráðist ekki af upplýsingalögum.

Herra forseti. Ég held að upplýsingalögin séu helst notuð til að vera eitthvert skjól fyrir ráðherrana til að þurfa ekki að svara fyrirspurn frá alþingismönnum.

Síðan ber hæstv. ráðherra líka fyrir sig úrskurðarnefnd upplýsingamála í þessu efni, að hann geti neitað að svara, og ég held að það þurfi að taka til endurskoðunar, herra forseti, eins og reyndar liggur fyrir um frv. hér á Alþingi, að það er forsrh. sjálfur sem skipar alla þá sem sitja í úrskurðarnefnd upplýsingamála. Það er í hæsta máta óeðlilegt, herra forseti.

Þetta mál sem lagt var fyrir Alþingi í dag er ekki eina málið eða svarið frá hæstv. ráðherra þar sem hann ber fyrir sig upplýsingalögin. Hæstv. forsrh. hefur gert það í svari við annarri fyrirspurn. Það kemur fyrir aftur og aftur, herra forseti, að ráðherrar sýna þinginu þannig lítilsvirðingu. Ég held að kominn sé tími til, herra forseti, að þetta mál verði tekið til alvarlegrar skoðunar í hæstv. forsn.