Samningamál sjómanna og mönnun skipa

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:48:31 (5947)

2001-03-26 15:48:31# 126. lþ. 97.1 fundur 411#B samningamál sjómanna og mönnun skipa# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur frv. hæstv. samgrh. um mönnunarmál flotans, það er mál nr. 348, um áhafnir íslenskra skipa, þar sem gert er ráð fyrir fækkun bæði stýrimanna og vélstjóra á íslenskum fiskiskipum. Fyrir viku þegar ríkisstjórnin var að keyra í gegn frv. um frestun á verkfalli sjómanna kom fram að eitt af því sem stendur í samtökum sjómanna væri þetta frv. Formaður Vélstjórafélagsins gekk svo langt á fundi með sjútvn. að segja að meðan ekki væru gerðar breytingar á frv. yrði ekki af samningum.

Þetta lét ég koma fram í umræðum um frv. ríkisstjórnarinnar, herra forseti.

Nú liggur fyrir að sú vika sem liðin er síðan lög voru sett á verkfall sjómanna hefur ekki nýst sem skyldi. Viðræður hafa lítt þokast eins og við í stjórnarandstöðunni vöruðum reyndar við og það er jafnljóst, herra forseti, að ríkisstjórnin ber ærna ábyrgð. Ég vil því spyrja hæstv. samgrh. hvort hann hafi látið skoða nefnt frv. með tilliti til þeirrar stöðu sem uppi er í viðræðum sjómanna og útvegsmanna og þá jafnframt hvort málið verði tekið fyrir á hinu háa Alþingi fljótlega þar sem brtt. ráðherrans yrðu kynntar og ræddar.