Samningamál sjómanna og mönnun skipa

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:52:01 (5949)

2001-03-26 15:52:01# 126. lþ. 97.1 fundur 411#B samningamál sjómanna og mönnun skipa# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Mér þykja þetta alls ófullnægjandi svör. Það kunna að verða gerðar breytingar á frv., segir hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn ber alla ábyrgð á því að samningamál sjómanna og útvegsmanna hjakka þessa dagana. Og sannarlega þyrfti ríkisstjórnin að koma að því með einhverjum skapandi hætti að keyra þær viðræður hressilega í gang aftur. Af því að það var hún sem fyrir viku frestaði verkfallinu og tók þá áhættu að viðræðurnar stöðvuðust. En það kunna að verða gerðar breytingar á frv., segir hæstv. ráðherra. Þetta eru ekki fullnægjandi svör.

Það er rétt að í frv. eru réttindamál en í því eru líka atriði sem eru greinilega baneitruð, ekki bara fyrir vélstjóra, heldur líka fyrir stýrimenn. Um það hafa verið skrifaðar margar greinar í blöðin. Það liggur nákvæmlega fyrir hvað það er sem mönnum finnst óaðgengilegt og ég skora á ráðherrann að axla þá ábyrgð sem ríkisstjórnin ber á því hvernig viðræðum er komið og upplýsa frekari vilja í þessu máli en nú hefur komið fram.