Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:02:47 (5956)

2001-03-26 16:02:47# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Horfur í efnahagslífi landsmanna gætu að mörgu leyti verið hagfelldar á næstu árum. Í skýrslu sem Þjóðhagsstofnun hefur nýlega gefið út er gert ráð fyrir 3% hagvexti á árunum 2002--2005, verðbólgu sem verður ekki nema um 3,5%, sem er u.þ.b. viðunandi miðað við aðstæður, og prýðilegu atvinnustigi.

Á þessa mynd, herra forseti, fellur eigi að síður skuggi þráláts og vaxandi viðskiptahalla. Viðskiptahallinn getur að sögn Þjóðhagsstofnunar komið í veg fyrir mjúka lendingu eftir þensluskeið síðustu ára og því komið í veg fyrir að þessi tiltölulega jákvæða spá rætist.

Andstætt því sem stjórnvöld sögðu í kringum kosningar hefur viðskiptahallinn stöðugt vaxið á kjörtímabilinu. Hann varð að lokum á síðasta ári 69 milljarðar og því miður eru engar horfur á að hann lækki á þessu ári þegar hann mun að öllum líkindum samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar losa 72 milljarða og verða áfram yfir 10% af landsframleiðslu. Vegna þessa mikla halla segir Þjóðhagsstofnun að mikil óvissa ríki um framvindu efnahagsmála. Þjóðhagsstofnun spáir því að milli 2002 og 2005 verði hallinn að meðaltali 8,5% af landsframleiðslu.

Hún hefur eðlilega miklar áhyggjur af þessari þróun eins og kemur fram í eftirfarandi orðum hennar í skýrslunni sem ég leyfi mér að vitna til, með leyfi forseta:

,,Svona mikill halli gæti teflt í tvísýnu stöðugleikanum og veikti óhjákvæmilega efnahagslífið --- og reyndar er vafasamt að hann fengi staðist við þær horfur sem hér er að öðru leyti byggt á.``

Annars staðar segir líka í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, með leyfi forseta:

,,Efast má um að takist að fjármagna þennan mikla viðskiptahalla í svo langan tíma og mikill þrýstingur verður á lækkun gengis.``

Herra forseti. Það er athyglisvert að þarna er það ekki stjórnarandstaðan heldur undirstofnun hæstv. forsrh. sem varar við því að viðskiptahallinn gæti leitt til alvarlegrar stöðu gegnum gengisfall og verðbólgu verði ekki gripið til réttra ráðstafana. Þetta er raunar í samræmi við skoðun Seðlabankans í síðasta riti Peningamála þar sem sú ágæta stofnun telur að viðskiptahallinn ógni bæði verðstöðugleika og fjármálastöðugleika. Herra forseti, ég ítreka að að aðvörunarorðin koma frá þessum tveimur stofnunum í samfélaginu.

Þjóðhagsstofnun, og það finnst mér athyglisvert, tekur nánast orðrétt undir gagnrýni Samfylkingarinnar. Hún segir að orsakanna sé m.a. að leita í mistökum ríkisstjórnarinnar sem hafi birst í slaka í hagstjórninni 1998 og 1999 þegar aðhaldsstig efnahagsstefnunnar hafi verið ófullnægjandi og jafnframt gífurleg útlánaþensla í bankakerfinu. Ég læt nægja að rifja upp, herra forseti, hvernig var staðið að því að selja hlutafé í fyrstu lotu einkavæðingar bankanna þegar eigið fé bankanna var aukið sem gerði þeim kleift að fara í kapphlaup um að þrýsta út ódýru fjármagni til að styrkja hlutdeild sína fyrir fyrirhugaða uppstokkun á bankamarkaði.

Hins vegar er ljóst að þrátt fyrir mistökin er enn hægt að tryggja stöðugleika og hagsæld í efnahagslífinu ef menn grípa til réttra aðgerða. Það gerir að sönnu miklar kröfur til hagstjórnar en Þjóðhagsstofnun telur þrennt nauðsynlegt til að ná mjúkri lendingu: Að efla fjármálaeftirlit með lánastofnunum vegna vaxandi áhættu sem birtist m.a. í lækkandi eiginfjárhlutfalli, að stórauka vægi ríkisfjármála í hagstjórninni og auk þess að endurskoða áherslur í stjórn peningamála.

Varðandi hið síðastnefnda þá hafa æ fleiri mælt með því að vikmörk núverandi gengisstefnu verði afnumin og Seðlabankinn taki upp formlegt, tölusett verðbólgumarkmið sem leiðarljós peningastefnunnar. Með því yrði réttilega hafnað þeirri leið að leysa vandamál viðskiptahallans með gengisfellingu og tilheyrandi verðbólgu. Viðskiptahallinn yrði hins vegar áfram áhættuþáttur sem grafið gæti undan genginu og stöðugleika fjármálakerfisins. Þess vegna yrði enn brýnna en áður að huga að aðgerðum sem gætu dregið úr vexti innlendrar eftirspurnar og aukið þjóðhagslegan sparnað og þannig minnkað viðskiptahallann.

Í því efni vek ég eftirtekt á því að Þjóðhagsstofnun mælir sérstaklega með aðgerðum í ríkisfjármálum, eða eins og segir í riti stofnunarinnar, með leyfi forseta:

,,Fyrir vikið er mikilvægt að ríkisfjármálum sé beitt til frekara aðhalds að eftirspurn en gert hefur verið. Þar er um að ræða hagstjórnartæki sem samtímis getur stuðlað að því að draga úr verðbólgu og viðskiptahalla.``

Í ljósi þeirra viðhorfa sem fram koma í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, einnar af undirstofnunum hæstv. forsrh., vil ég spyrja hæstv. forsrh. eftirfarandi spurninga:

Er hann þeirrar skoðunar að heppilegt sé að verðbólgumarkmið verði leiðarljósið í peningamálum og þá jafnframt að beita þurfi sér hið fyrsta fyrir nauðsynlegum breytingum sem því fylgja?

Í öðru lagi: Hyggst hann hann fara eftir öðrum þeim ráðleggingum sem Þjóðhagsstofnun bendir á í skýrslu sinni til þess að vinna gegn viðskiptahallanum?