Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:20:16 (5961)

2001-03-26 16:20:16# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Enn á ný ræðum við viðskiptahallann. Enn á ný hefur Þjóðhagsstofnun sent aðvaranir sínar til hæstv. ríkisstjórnar. Enn á ný virðist hæstv. forsrh. ekki vilja hlusta. Enn á ný, herra forseti, reynum við í stjórnarandstöðu að vara við. Enn á ný, herra forseti, viljum við vona að gripið verði til aðgerða þannig að tryggja megi að lendingin verði mjúk þegar að henni kemur. En því miður, herra forseti, virðist ýmislegt benda til þess að hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn stundi enn afneitun staðreynda.

Því miður, herra forseti, virðist það eingöngu vera bjartsýnin sem hæstv. forsrh. hefur að bjóða þjóðinni. Ég vil segja, herra forseti, að brýnt er að hæstv. forsrh. noti einnig raunveruleikann í bland við bjartsýnina og þá eigum við von til þess að lending okkar verði mjúk. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að reyna eftir besta megni að tryggja hina mjúku lendingu. Það gerum við ekki öðruvísi en að horfa á staðreyndirnar og nýta þær í bland, herra forseti, við bjartsýnina til að ná hinni mjúku lendingu.

Ýmislegt í riti Þjóðhagsstofnunar minnir mjög á aðvaranir okkar í stjórnarandstöðunni undanfarin ár. Ljóst er að lausatökin árin 1998 og 1999 hafa skapað þá þenslu sem við höfum verið að glíma við síðan. Einnig er ljóst að því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekki móttekið þær staðreyndir og því ekki brugðist við á þann hátt sem eðlilegt getur talist. Og því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekki nýtt ríkisfjármálin til að beita þeim aðferðum sem nauðsynlegar eru til að tryggja hina mjúku lendingu.

Einnig er athyglisvert, herra forseti, að hæstv. forsrh. virðist ekki þola þegar stofnanir á hans vegum leggja fram þær staðreyndir sem stjórnarandstaðan hefur áður gert.

Herra forseti. Við verðum þó að lifa í voninni um að staðreyndirnar nái fram að lokum.