Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 17:15:57 (5975)

2001-03-26 17:15:57# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[17:15]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýddi með athygli á ræðu hv. þm. Því sem ég var að bregðast við var bæði það sem hv. þm. sagði og líka sá andi eða það sem mér fannst vera undirliggjandi í ræðu hans. Hann varaði við. Hann varaði við breytingum og bar m.a. fram þær ástæður sem ég spurði hann síðan um.

Það er mjög eðlilegt, herra forseti, að menn fari yfir þá kosti sem eru í stöðunni á hverjum tíma. En menn verða auðvitað á hverjum tíma að líta til þess umhverfis sem skapað hefur verið og fyrirtæki, einstaklingar eða stofnanir verða að búa við. Við hljótum að horfa til þess hvað þeim aðilum sem starfa á viðkomandi sviði finnst og hvernig þeir telja líklegast að sú starfsemi sem þeir standa fyrir geti tekist á við nútímann.

Ég er ekki að segja að á endanum muni hv. þm. ekki styðja frv., en sannarlega fannst mér viðhorfin sem fram komu hjá honum vera slík að ástæða væri til að spyrja þessara spurninga.