Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 17:31:02 (5984)

2001-03-26 17:31:02# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tók það m.a. sérstaklega fram að ég legðist ekki gegn því að stærstu sparisjóðirnir, sem líklegastir eru til að ríða á vaðið með það að breyta sér í hlutafélög, fengju þær heimildir. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni. (Gripið fram í.) Ég sagði að líklegast væri að þeir mundu nýta sér þá heimild þannig að breytingin mundi fyrst og fremst varða þá í byrjun.

Ég var hins vegar að fara yfir aðrar mögulegar leiðir og lýsti eftir því að skoðað yrði hvort fjölga ætti valkostunum sem sparisjóðirnir ættu úr að velja til að virða sjálfstæði þeirra og sjálfsákvörðunarrétt. Mér finnst skipta mestu máli að við finnum skynsamlegar leiðir til að auðvelda sparisjóðunum þær breytingar sem þeir kjósa að fara út í, þó þannig að þeir varðveiti eiginleika sína og geti áfram þjónað því hlutverki sem þeir hafa gegnt. Þetta snýst um það að mínu mati. Ég er algerlega sannfærður um að aðstandendur sparisjóðanna vilja fara slíkar leiðir eftir því sem kostur er og við eigum að auðvelda þeim það.