Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 18:12:14 (5991)

2001-03-26 18:12:14# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[18:12]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það var afar athyglisvert að heyra hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsa sjónarmiðum sínum og þá væntanlega flokks síns. (PHB: Nei, nei.) Hv. þm. er fulltrúi Sjálfstfl. á Alþingi og ég hef ekki vitað til að hv. þm. hafi sagt sig úr honum. En er það að hans mati eina krafan sem maður gerir til þjónustustofnana eins og banka og sparisjóða að þeir eigi að ganga erinda hámarksarðsemi eigin fjár og hafa það sem sína einu kröfu, eina leiðarljós, eins og virtist birtast í ummælum hv. þm.? Ég vil gjarnan heyra sjónarmið hans því að að mínu mati eru peningar í sjálfu sér afl þess sem gera þarf en þeir eiga ekki að geta lifað eigin lífi eins og mér fannst liggja í orðum hv. þm.

Ég gat síðan ekki heyrt, herra forseti, nein velþóknunarorð frá hv. þm. í garð sparisjóðanna. Finnst honum að það ætti bara að loka þeim og leggja þá niður eða láta þá bara fara inn í þessa stóru hlutafélagapúllíu eins og hann var að lýsa? Eru þeir alveg óalandi og óferjandi eins og þeir eru núna í því hlutverki sem þeir hafa gegnt?

Síðan verð ég að láta í ljós þá skoðun mína að menn geta verið ágætis féhirðar án þess að eiga féð. Við þekkjum dæmi um marga góða fjárhirða sem hirtu vel féð án þess að eiga það.